Fótbolti: KFA eltir Víking Ólafsvík í toppbaráttu annarrar deildar

Knattspyrnufélag Austfjarða styrkti heldur stöðu sína á toppi annarrar deildar karla í knattspyrnu um helgina með 2-1 sigri á ÍR. Rautt spjald og víti snéri leik Hattar/Hugins gegn Dalvík/Reyni.

Höttur/Huginn komst yfir gegn Dalvík/Reyni á 41. mínútu á Vilhjálmsvelli á föstudagskvöld. Varnarmaðurinn Stefan Spasic skoraði í kjölfar hornspyrnu.

Á 64. mínútu ver Alberto Lopez boltann á marklínu með hendi. Slíkt mega útileikmenn ekki gera og því dæmt víti auk þess sem Albert fékk rautt spjald. Dalvík/Reynir jafnaði leikinn. Úrslitin réðust svo þegar gestirnir skoruðu tvö mörk undir lok leiksins.

KFA tók á móti ÍR á laugardag. Heiðar Snær Ragnarsson kom KFA yfir á 35. mínútu og Marteinn Már Sverrisson skoraði seinna markið á 56. mínútu. Mark gestanna kom í uppbótartíma.

KFA er í öðru sæti með 20 stig úr 10 leikjum, tveimur frá toppliði Víkings Ólafsvíkur. Höttur/Huginn er í 6. sæti með 14 stig úr 10 leikjum.

FHL spilaði gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ í Lengjudeild kvenna um helgina. Heimaliðið vann 1-0. FHL er í 8. sæti með 9 stig úr 9 leikjum.

Í B-riðli fimmtu deildar karla er Spyrnir í 5. sæti með 14 stig úr 8 leikjum. Liðið gerði í síðustu viku 2-2 jafntefli við Samherja á Hrafnagilsvelli. Heimamenn komust í 2-0 eftir um 20 mínútur en Eyþór Magnússon minnkaði strax muninn. Arnór Magnússon, sem kom að láni frá Hetti/Huginn daginn fyrir leik, jafnaði úr víti á 78. mínútu. Gunnar Einarsson, markvörður Spyrnir, varði síðan vítaspyrnu í uppbótartíma.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.