Fótbolti: KFA kafsigldi Hött/Huginn í seinni hálfleik – Myndir

KFA er áfram í baráttunni um að komast upp úr annarri deild karla eftir 8-2 stórsigur á Hetti/Huginn í Fjarðabyggðarhöllinni á miðvikudagskvöld. KFA skoraði sjö mörk í seinni hálfleik eftir að hafa verið 1-2 undir í leikhléi. Leikmaður Hattar/Hugins fékk rautt spjald eftir að fyrri hálfleikur var flautaður af.

KFA byrjaði leikinn ákveðið og komst í 1-0 með sjálfsmarki á tólftu mínútu. Eftir það tóku gestirnir völdin, héldu boltanum vel og voru fljótir að vinna hann til baka. FHL réði illa við Víði Ívarsson og á miðjunni réði Rafael Caballe ferðinni.

Bjarki Fannar Helgason jafnaði leikinn á 25. mínútu þegar hann lék inn á teiginn og skaut á markið. Martim Cardoso kom Hetti/Huginn yfir á 39. mínútu. KFA var þá að byrja að vinna sig aftur inn í leikinn en Höttur/Huginn náði skyndisókn, boltanum var lyft inn fyrir á Martim sem gat látið skoppa hann einu sinni áður en hann tók hann á lofti.

Eftir að flautað var til hálfleiks gekk Brynjar Þorri Magnússon að leikmanni KFA og hrinti honum í jörðina. Dómarar leiksins sáu atvikið og gáfu Brynjari rauða spjaldið. Fleiri gul spjöld fóru á loft þegar leikmenn liðanna hópuðust saman í kjölfarið eða beindu reiði sinni að dómaranum. Til að bæta gráu ofan á svart þurfti Martim, sem er næst markahæstur í deildinni með 12 mörk, að fara út af meiddur.

Þrjú mörk á fjórum mínútum


Í seinni hálfleik hrundi leikur Hattar/Hugins og KFA keyrði á það af fullum krafti. Strax á annarri mínútu jafnaði Eiður Orri Ragnarsson, óvaldaður á fjærstönginni eftir hornspyrnu. Hann bætti við öðru marki beint úr aukaspyrnu á 56. mínútu. Tveimur mínútum síðar skoraði Jacques Fokam Sandeu er hann stýrði inn sendingu frá hægri af stuttu færi.

Patrekur Aron Grétarsson hefði getað bætt í forskotið á 66. mínútu er hann komst einn inn fyrir. Fyrra skot hans var varið, hann fékk frákastið og lék til vinstri til að komast fyrir opið markið en jafnvægið gaf sig og skotið fór yfir. Það skipti ekki máli þegar Matheus Gotler skoraði með góðu skoti úr vítateigsboganum á 67. mínútu.

Eftir að hafa fengið á sig þrjú mörk og lent 4-2 undir á fyrri helmingi seinni hálfleiks brast allt sjálfstraust Hattar/Hugins. Fyrirliðinn Kristófer Einarsson gaf mark þegar Matheus komst inn í slaka sendingu hans til baka til markvarðarins á 69. mínútu. Mínútu síðar missti markvörðurinn, Ívar Arnbro Þórhallsson, sendingu fyrir fætur Tómasar Atla Björgvinssonar, sem tók eina snertingu og skoraði. Fimm mínútur liðu svo fram að næsta marki sem Heiðar Snær Ragnarsson skoraði, en hann fékk boltann eftir að Ívar missti af hárri fyrirgjöf.

Meira var ekki skorað í leiknum en KFA fékk nokkrar efnilegar sóknir, þótt skotfærin væru ekki opin sem fyrr. Liðið var mjög ákveðið í sínum aðgerðum í seinni hálfleik og manni færri réði Höttur/Huginn illa við sendingar upp í hornin á fljóta framherja heimaliðsins.

Leikurinn var vel sóttur og stúkan full í Fjarðabyggðarhöllinni. Vallarklukkan lagði hins vegar niður störf. Það var óþægilegt fyrir þá áhorfendur sem týndu tölunni þegar mark KFA komu á færibandi en kannski þægilegt fyrir stuðningsmenn Hattar/Hugins að þurfa ekki að horfa upp á stöðuna.

Versti hálftími á Hattarferlinum


„Fyrstu 30 mínúturnar í seinni hálfleik eru þær verstu sem ég hef séð á mínum fótboltaferli hjá Hetti/Huginn. Við ætluðum að verja forustuna manni færri en fáum mark full snemma í andlitið. Við það virðast menn missa trúna og við gefum þeim mörk á færibandi. Það er ekki fyrr en við hleypum varamönnum inn í leikinn að við förum aftur að berjast og náum að halda andlitinu þokkalega síðustu 20 mínúturnar,“ sagði Brynjar Árnason, þjálfari Hattar/Hugins, eftir leikinn.

Hann sá ekki hrindinguna sem leiddi til rauða spjaldsins sem aftur gerbreytti leiknum. „Mér heyrist leikmaðurinn hafa boðið upp á þetta með að setja hendurnar í bringuna á mótherjanum. Á sama skapi kann dómarinn að hafa fallið í gildru þegar maðurinn hendir sér niður með tilþrifum. Miðað við það sem mér skilst var þetta hart rautt. Ég held að það hefði verið hægt að gefa gult og allir farið sáttir inn í klefa.“

Sem fyrr segir var framherja Hattar/Hugins, Martim Cardoso skipt út af í hálfleik vegna meiðsla en ákvörðunin var líka tekin vegna rauða spjaldsins. „Martim fékk högg og var stífur. Við ákváðum að taka enga áhættu með hann en við þurftum líka að breyta út af rauða spjaldinu. Hann var að vinna vel fyrir okkur frammi og kannski hafði það áhrif að við þurftum að breyta um kerfi.“

Markmiðið að fá fleiri stig en í fyrra


Möguleikar Hattar/Hugins á að komast upp um deild virðast úr sögunni eftir tvö tapleiki í röð, en liðið hafði áður unnið sig upp í toppbaráttuna með fimm sigrum í röð. Liðið er í 6. sæti með 27 stig en það lauk keppni í fyrra með 33 stig. „Að fara upp er orðinn fjarlægur möguleiki en það eru eftir fjórir leikir sem við ætlum að vinna. Okkur langar að gera betur en í fyrra og ef það tekst þá er það fín niðurstaða.“

Höttur/Huginn á heimaleik á sunnudag gegn Víkingi Ólafsvík, sem er í fjórða sæti og í baráttu við Völsung, Þrótt Vogum og KFA um að fylgja Selfossi upp. „Kannski verður erfitt fyrir einhverja leikmenn að koma til baka (eftir stórt tap) en ég held að flestir vilji komast sem fyrst aftur inn á völlinn og sýna sitt rétta andlit.“

Misstu stjórnina eftir að hafa komist yfir


Eggert Gunnþór Jónsson, þjálfari KFA, sagði viðsnúningurinn hafa byggst á að fara aftur að spila eins og lagt var upp með sem skilaði marki eftir rúmar tíu mínútur. „Við gerðum ekki mikið í hálfleik. Við ræddum um að fara aftur í það sem við töluðum um fyrir leik og gerðum vel fyrsta kortérið. Síðan erum við eitthvað brothættir og förum út frá því sem við lögðum upp með, að halda boltanum, færa hann vel og keyra á þá. Við erum með kraftmikla vængmenn sem geta farið hvort sem er innan á eða utan á varnarmennina. Við nýttum vel stöður sem við komumst í maður á mann. Það er mörk og ákefð í þeim.

Við byrjum aftur á okkar leik í seinni hálfleik og síðan opnast flóðgáttirnar. Það var líka gott að sjá liðið halda áfram en ekki hætta (þegar forustan var orðin góð) og það hefði ekki verið ósanngjarnt að við hefðum skorað fleiri mörk.“

Sigur sem byggir upp sjálfstraust


Eggert Gunnþór tók við liðinu, ásamt þeim Hlyni Bjarnasyni og Halldóri Bjarneyarsyni, um verslunarmannahelgina en liðið hafði þá tapað þremur leikjum í röð. Eftir það hafa tveir af þremur leikjum unnist. KFA er nú í fimmta sæti með 31 stig, þremur stigum frá Völsungi sem er í öðru sæti en liðin mætast í lokaumferðinni. Þróttur Vogum og Víkingur eru með 23 stig. Öll liðin eru með 12 mörk í plús.

Eggert Gunnþór vonast til að frábær seinni hálfleikur og stórsigur auki sjálfstraustið í KFA liðinu fyrir síðustu fjóru leikina. KFG er næsta á dagskrá í Garðabæ á morgun. „Þessi sigur gerir mikið fyrir okkur. Við erum með marga unga leikmenn sem þýðir að leikur okkar getur verið rokkað aðeins til. En ég hef sagt þeim að þegar við erum á okkar degi þá eru ekki mörg lið í deildinni sem geta lifað með því.“

Fyrir leikinn gegn Hetti/Huginn hafði hann spilað 16 af 17 leikjum liðsins. Hann var hins vegar ekki í leikmannahópnum. „Ég snéri á mér ökklann í reitabolta á síðustu æfingunni fyrir leik. Það varir vonandi stutt þótt það sé erfitt að setja sig í liðið eftir 8-2 sigur. Þótt aðeins hafi þynnst úr hópnum þá er hann breiður og ég treysti öllum leikmönnum til að gera góða hluti.“

DL6R1228 Lyst Web
DL6R1245 Lyst Web
DL6R1250 Lyst Web
DL6R1253 Lyst Web
DL6R1258 Lyst Web
DL6R1261 Lyst Web
DL6R1263 Lyst Web
DL6R1270 Lyst Web
DL6R1276 Lyst Web
DL6R1281 Lyst Web
DL6R1308 Lyst Web
DL6R1309 Lyst Web
DL6R1314 Lyst Web
DL6R1317 Lyst Web
DL6R1324 Lyst Web
DL6R1342 Lyst Web
DL6R1349 Lyst Web
DL6R1360 Lyst Web
DL6R1367 Lyst Web
DL6R1370 Lyst Web
DL6R1378 Lyst Web
DL6R1383 Lyst Web
DL6R1396 Lyst Web
DL6R1400 Lyst Web
Adal DL6R1286 Lyst Web
Eggert Gunnthor Coach Lyst Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.