Fótbolti: KFA landaði sigri á ný

Eftir þrjá tapleiki og þar með þjálfaraskipti komst KFA á sigurbrautina á ný í annarri deild karla í knattspyrnu. Höttur/Huginn fylgir áfram þar á eftir.

KFA vann um helgina Fjallabyggð 3-0. Eiður Orri Ragnarsson skoraði fyrsta markið á 26. mínútu. Hin mörkin tvö komu þegar leið að lokum leiksins. Patrekur Aron Grétarsson skoraði fyrst á 79. mínútu og svo Jacques Fokam Sandeu, sem kom til liðsins í júlí, tveimur mínútum síðar.

Þetta var fyrsti deildarleikur liðsins undir stjórn nýrra þjálfara, en vika er síðan þeir Eggert Gunnþór Jónsson, Hlynur Bjarnason og Halldór Bjarneyjarson tóku við henni.

Þeir byrjuðu þó á að vinna Augnablik 1-3 í átta liða úrslitum Fótbolti.net bikarsins.

Í annarri deildinni vann Höttur/Huginn einnig Kormák/Hvöt, 1-2 á útivelli. Húnvetningar voru 1-0 yfir í hálfleik en Bjarki Fannar Helgason skoraði tvö mörk í seinni hálfleik.

Það bar til tíðinda að fjögur af fimm efstu liðunum unnu leiki sína um helgina, aðeins topplið Selfoss tapaði. Það þýðir að KFA er áfram í fjórða sæti, stigi á eftir Völsungi og Víkingi Ólafsvík. Höttur/Huginn er svo stigi frá KFA.

Í fimmtu deild tapaði Spyrnir 2-0 fyrir Létti.

Sem kunnugt er þá tryggði FHL sér sæti í úrvalsdeild kvenna á næstu leiktíð með 5-1 sigri á ÍBV á laugardag. Í annarri deild kvenna sat Einherji hjá í fystu umferð efsta hluta og hefur leik um næstu helgi.

Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.