Fótbolti: KFA með fimm stiga forskot inn í fríið í mótinu
Knattspyrnufélag Austfjarða hefur fimm stiga forskot á toppi annarrar deildar karla fyrir tíu daga frí í deildinni eftir sigur í toppslag við Dalvík/Reyni í gærkvöldi. Einherji hefur unnið sig inn í baráttuna í annarri deild kvenna með fimm sigrum í röð.Það var William Suárez sem skoraði eina markið í leiknum í Fjarðabyggðarhöllinni í gærkvöldi á 40. mínútu. Ekki voru frekari stórtíðindi í leiknum fyrr en á sjöttu mínútu uppbótartíma þegar leikmaður Dalvíkur/Reynis fékk sitt annað gula spjald og þar með hið rauða.
KFA hefur núna leikið 15 leiki í Íslandsmótinu í röð án taps og er með 31 stig. Fyrir leikinn í gær hafði Dalvík/Reynir unnið sex í röð og svo gert eitt jafntefli. Dalvík/Reynir deilir öðru sætinu með KFG og Víkingi Ólafsvík en liðin hafa öll 26 stig.
Í sömu deild tapaði Höttur/Huginn 3-1 fyrir Haukum á miðvikudag. Hafnfirðingar komust yfir rétt fyrir hálfleik en Valdimar Brimir Hilmarsson jafnaði á 64. mínútu. Heimaliðið var svo komið yfir strax mínútu síðar og bætti svo við einu enn.
Höttur/Huginn er í sjöunda sæti með 20 stig úr 15 leikjum. Tíu daga hlé er nú framundan í Íslandsmótinu en það hefst aftur laugardaginn 12. ágúst með leik Hattar/Hugins gegn KFA á Egilsstöðum.
Í Lengjudeild kvenna tapaði FHL grátlega fyrir toppliði Víkings í Fjarðabyggðarhöllinni á miðvikudagskvöld. Gestirnir skoruðu eina mark leiksins á annarri mínútu uppbótartíma. FHL er með 13 stig úr 13 leikjum í 8. sæti.
Einherji hefur verið á mikilli siglingu í annarri deild kvenna og unnið sex leiki í röð. Í vikunni var komið að 1-6 sigri á Sindra á Höfn. Karólína Dröfn Jónsdóttir og Viktoria Szeles skoruðu tvö mörk hvor en þær Paula Lopez og Oddný Karólína Hafsteinsdóttir eitt hvor.
Einherji er með 24 stig úr 14 leikjum og í 8. sæti. Þótt sætistalan sé lág segir það ekki alla söguna því deildin er jöfn. Efsta liðið, ÍR er með 30 stig og hefur leikið 15 leiki.