Fótbolti: KFA taplaust í gegnum fyrri helming Íslandsmótsins

Lið Knattspyrnufélags Austfjarða í annarri deild karla í knattspyrnu er taplaust eftir fyrri helming deildarinnar. Liðið gerði jafntefli við Sindra á Höfn um helgina.

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir KFA þegar Inigo Albizuri var rekinn út af um miðjan fyrri hálfleik. KFA komst þó yfir eftir hálftíma með marki Marteins Más Sverrissonar.

Sindri jafnaði á 63. mínútu en Vice Kendes kom KFA strax yfir aftur. Hornfirðingar jöfnuðu á 71. mínútu og þar við sat.

Í sömu deild tapaði Höttur/Huginn fyrir ÍR á útivelli 2-0. Mörkin komu um miðjan seinni hálfleik.

KFA er í öðru sæti deildarinnar með 21 stig, tveimur stigum frá Víkingi Ólafsvík. Nokkurt afrek er að fara í gegnum fyrri helming mótsins án taps en á móti kemur að liðið hefur gert jafntefli í sex af 11 leikjum. Höttur/Huginn er í 7. sæti með 14 stig.

Í B-riðli fimmtu deildar er Spyrnir í þriðja sæti með 17 stig. Liðið vann Smára 5-0 á Vilhjálmsvelli á laugardag. Guðþór Hrafn Smárason kom Spyrni yfir en kaflaskil urðu í lok fyrri hálfleiks. Markvörður gestanna fékk þá rautt spjald eftir tvö gul spjöld á fjögurra mínútna kafla.

Almar Aðalsteinsson skoraði annað mark Spyrnir á 63. mínútu en undir lokin komu þrjú mörk frá þeim Róbert Þormari Skarphéðinssyni, Heiðari Loga Jónssyni og Unnari Birki Árnasyni.

Í Lengjudeild kvenna gerði FHL 1-1 jafntefli við KR á útivelli. Natlie Cooke kom FHL yfir á 49. mínútu en KR jafnaði úr víti á 76. mínútu. FHL er í sjöunda sæti með 10 stig, þremur stigum frá KR sem er í fallsæti.

Lið Einherja í annarri deild kvenna spilaði tvo leiki á heimavelli í síðustu viku. Á miðvikudag tapaði liðið 0-1 fyrir Völsungi. Í gær vann það ÍH heima, 2-1. Oddný Karólína Hafsteinsdóttir skoraði fyrra markið á 24. mínútu og Karólína Dröfn Jónsdóttir það seinna í uppbótartíma fyrri hálfleiks. ÍH minnkaði muninn kortéri fyrir leikslok. Einherji í er í 8. sæti með 12 stig úr 10 leikjum.

Mynd: Jón Guðmundsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar