Fótbolti: KFA tryggði sér leik á Laugardalsvelli

KFA tryggði sér sæti í úrslitum Fótbolti.net bikarsins með sigri á Tindastóli í undanúrslitum um helgina. Fáskrúðsfirðingur skoraði annað marka KA sem urðu bikarmeistarar eftir sigur á Víkingi.

KFA tók á móti Tindastóli í Fjarðabyggðarhöllinni á laugardag. Austfjarðaliðið var fyrirfram líklegra því Tindastóll spilaði í sumar í fjórðu deild en KFA í annarri. Tindastóll vann þó sína deild með yfirburðum.

Gestirnir komust yfir á fjórðu mínútu en Eiður Orri Ragnarsson jafnaði á tíundu mínútu. Marteinn Már Sverrisson skoraði sigurmarkið á 69. mínútu.

Úrslitaleikurinn verður spilaður á Laugardalsvelli um næstu helgi. KFA mætir þar Selfossi sem vann hinn undanúrslitaleikinn, en Selfoss vann aðra deildina í sumar.

Í A-úrslitum 2. deildar kvenna tapaði Einherji 0-4 fyrir Haukum á heimavelli um helgina. Haukar voru 0-1 yfir í hálfleik. Ásdís Fjóla Víglundsdóttir fékk rautt spjald í liði Einherja á 36. mínútu.

Fáskrúðsfirðingurinn Dagur Ingi Valsson skoraði seinna mark KA sem urðu bikarmeistarar karla með 2-0 sigri á Víkingi. Mark Dags kom á 90+9 mínútu eftir skyndisókn. Hann kom inn á sem varamaður fimm mínútum fyrr. Annar Austfirðingur, Norðfirðingurinn Halldór Hermann Jónsson, var í liðsstjórn KA.

U-20 ára lið FHL tryggði sér sæti í undanúrlitum B deildar með 12-2 sigri á Haukum um helgina. Mörkin skiptu máli því liðið varð jafnt Stjörnunni/Álftanesi að stigum en komst áfram með fjórum mörkum betra markahlutafall. Í undanúrslitum mætir liðið ÍBV/Grindavík í Eyjum á morgun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar