Fótbolti: Leiknir úr leik í bikarnum

Leiknir Fáskrúðsfirði er úr leik í bikarkeppni karla í knattspyrnu eftir 1-3 ósigur fyrir Sindra á heimavelli á laugardag. Höttur komst áfram eftir 2-0 sigur á Einherja.


Kristinn Justiniano Snjólfsson var maður leiksins en hann lagði upp eitt mark og skoraði tvö í sigri Sindra. Sindri komst yfir á 18. mínútu þegar Kristinn braust upp hægri kantinn og renndi boltanum út á Duje Klaric sem skoraði.

Tíu mínútum fyrir leikhlé jafnaði Hilmar Freyr Bjartþórsson með föstu skoti utan teigs. Fimm mínútum síðar kom Kristinn gestunum aftur yfir þegar hann komst inn á vítateiginn vinstra megin eftir stungusendingu og renndi boltanum í netið.

Leiknir gerði atlögu að mark Sindra fyrsta korterið í seinni hálfleik. Hornfirðingar stóðu þá atlögu af sér, þéttu sinn leik og smám saman fjaraði undan leik Leiknis. Kristinn gerði út um leikinn þegar tæpar 20 mínútur eftir þegar hann lék inn á teiginn hægra megin eftir skyndisókn.

Augu margra voru á Leikni fyrir átökin í fyrstu deildinni í sumar og skartaði liðið fimm leikmönnum sem fengu leikheimild í vikunni fyrir leik. Það virtist hins vegar sem liðið vantaði kraft í leikinn gegn liði deild neðar. Að leikurinn væri frekar æfingaleikur heldur en bikarleikur.

Á Fellavelli komst Höttur yfir eftir kortérs leik. Dæmt var víti þegar farið var aftan í Friðrik Inga Þráinsson inni á teig og Elvar Þór Ægisson skoraði örugglega úr vítinu.

Steinar Aron Magnússon skoraði seinna markið í byrjun seinni hálfleiks. Brynjar Árnason sendi lágan bolta fyrir frá hægri eftir góðan sókn og Steinar Aron ýtti honum yfir línuna.

Höttur hafði nokkuð trygg tök á leiknum allan tíman. Ekki kom að sök þótt Garðar Már Grétarsson fengi rautt spjald þegar hann fékk seinni áminningu sína fyrir kjaftbrúk þegar tuttugu mínútur voru eftir.

Vopnfirðingar stilltu upp ungum varnarmönnum aldir eru upp hjá félaginu. Þeir komust ágætlega frá sínu en gestirnir ógnuðu lítið fram á við.

Sindri leikur gegn Fjarðabyggð í næstu umferð á Norðfjarðarvelli en Höttur tekur á móti Huginn. Báðir leikirnir verða klukkan sjö þriðjudagskvöldið 10. maí.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.