Fótbolti: Markatala skilur milli feigs og ófeigs í annarri deild

Fjarðabyggð, Höttur, KV og Vestri eru jöfn að stigum í fallbaráttu annarrar deildar karla í knattspyrnu en Fjarðabyggð er í fallsætinu út af markatölu þegar þrjár umferðir eru eftir. Huginn var eina austfirska liðið sem vann leik sinn um helgina.


Fjarðabyggð tapaði 3-0 gegn Magna á laugardag og Höttur 6-2 fyrir Aftureldingu í Mosfellsbæ þar sem Ignacio Martinez og Halldór Bjarki Guðmundsson skoruðu mörkin. Á sama tíma gerði KV 4-4 jafntefli við Sindra á Höfn, sem þrátt fyrir stigið féll þar með úr deildinni.

Liðin eru jöfn með 21 stig þegar þrír leikir eru eftir. Fjarðabyggð er í fallsætinu með -18 mörk, Höttur er með -16 mörk og KV -15. Vestri er með áberandi bestu markatöluna -4.

Fjarðabyggð á eftir heimaleik gegn Huginn um næstu helgi, Hetti úti í næst síðustu umferðinni og Sindra þeirri síðustu. Höttur tekur á móti Magna, sem er í öðru sæti, um næstu helgi og lýkur tímabilinu á að fara á Ísafjörð til Vestra.

KV á eftir Tindastól, Njarðvík og Aftureldingu. Tindastóll er næst fallsvæðinu en þó í fjögurra stiga fjarlægð og ætti að vera hólpið. Njarðvík er á toppnum en Afturelding á lygnum sjó um miðja deild. Vestri tekur einmitt á móti Aftureldingu um næstu helgi en mætir svo Magna þar á eftir.

Nokkuð ljóst er að eitt af þessum fjórum liðum, sem nú eru jöfn, fellur. Miðað við leikjaniðurröðunina virðist ekki ráðast hvert þeirra fer niður fyrr en í lokaumferðinni.

Huginn er í fjórða sæti deildarinnar en líkurnar á að liðið fari upp um deild eru aðeins tölfræðilegar. Liðið vann Völsung á heimavelli um helgina 2-1. Rúnar Freyr Þórhallsson og Kifah Mourad skoruðu mörkin.

Rétt eins og að líkurnar á að Huginn fari upp eru aðeins tölfræðilegar má hið sama segja um möguleika Leiknis á að forða sér frá falli úr fyrstu deildinni. Liðið þarf að vinna alla þrjá leikina sem það á eftir og vinna upp 23ja marka forskot ÍR. Leiknir tapaði fyrir Þrótti 2-0 í Reykjavík um helgina.

Í þriðju deild karla tapaði Einherji fyrir toppliði Kára á Akranesi 2-0 í gær.

Kvennaliðið náði jafntefli gegn Augnabliki í sínum síðasta heimaleik í sumar. Gamla brýnið Linda Björk Stefánsdóttir skoraði markið á 76. mínútu en Augnablik jafnaði í uppbótartíma.

Augnablik átti hins vegar betri dag í gær þegar það vann Fjarðabyggð/Hött/Leikni 1-4 á Vilhjálmsvelli. Elma Sveinbjörnsdóttir skoraði fyrir heimaliðið á 14. mínútu en gestirnir snéru leiknum við með fjórum mörkum á síðustu 17 mínútunum. Kvennaliðin ljúka Íslandsmótinu í ár með útileikjum um næstu helgi.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.