Fótbolti: Markatala skilur milli feigs og ófeigs í annarri deild
Fjarðabyggð, Höttur, KV og Vestri eru jöfn að stigum í fallbaráttu annarrar deildar karla í knattspyrnu en Fjarðabyggð er í fallsætinu út af markatölu þegar þrjár umferðir eru eftir. Huginn var eina austfirska liðið sem vann leik sinn um helgina.
Fjarðabyggð tapaði 3-0 gegn Magna á laugardag og Höttur 6-2 fyrir Aftureldingu í Mosfellsbæ þar sem Ignacio Martinez og Halldór Bjarki Guðmundsson skoruðu mörkin. Á sama tíma gerði KV 4-4 jafntefli við Sindra á Höfn, sem þrátt fyrir stigið féll þar með úr deildinni.
Liðin eru jöfn með 21 stig þegar þrír leikir eru eftir. Fjarðabyggð er í fallsætinu með -18 mörk, Höttur er með -16 mörk og KV -15. Vestri er með áberandi bestu markatöluna -4.
Fjarðabyggð á eftir heimaleik gegn Huginn um næstu helgi, Hetti úti í næst síðustu umferðinni og Sindra þeirri síðustu. Höttur tekur á móti Magna, sem er í öðru sæti, um næstu helgi og lýkur tímabilinu á að fara á Ísafjörð til Vestra.
KV á eftir Tindastól, Njarðvík og Aftureldingu. Tindastóll er næst fallsvæðinu en þó í fjögurra stiga fjarlægð og ætti að vera hólpið. Njarðvík er á toppnum en Afturelding á lygnum sjó um miðja deild. Vestri tekur einmitt á móti Aftureldingu um næstu helgi en mætir svo Magna þar á eftir.
Nokkuð ljóst er að eitt af þessum fjórum liðum, sem nú eru jöfn, fellur. Miðað við leikjaniðurröðunina virðist ekki ráðast hvert þeirra fer niður fyrr en í lokaumferðinni.
Huginn er í fjórða sæti deildarinnar en líkurnar á að liðið fari upp um deild eru aðeins tölfræðilegar. Liðið vann Völsung á heimavelli um helgina 2-1. Rúnar Freyr Þórhallsson og Kifah Mourad skoruðu mörkin.
Rétt eins og að líkurnar á að Huginn fari upp eru aðeins tölfræðilegar má hið sama segja um möguleika Leiknis á að forða sér frá falli úr fyrstu deildinni. Liðið þarf að vinna alla þrjá leikina sem það á eftir og vinna upp 23ja marka forskot ÍR. Leiknir tapaði fyrir Þrótti 2-0 í Reykjavík um helgina.
Í þriðju deild karla tapaði Einherji fyrir toppliði Kára á Akranesi 2-0 í gær.
Kvennaliðið náði jafntefli gegn Augnabliki í sínum síðasta heimaleik í sumar. Gamla brýnið Linda Björk Stefánsdóttir skoraði markið á 76. mínútu en Augnablik jafnaði í uppbótartíma.
Augnablik átti hins vegar betri dag í gær þegar það vann Fjarðabyggð/Hött/Leikni 1-4 á Vilhjálmsvelli. Elma Sveinbjörnsdóttir skoraði fyrir heimaliðið á 14. mínútu en gestirnir snéru leiknum við með fjórum mörkum á síðustu 17 mínútunum. Kvennaliðin ljúka Íslandsmótinu í ár með útileikjum um næstu helgi.