Fótbolti: Mikilvægur sigur KFA í baráttunni um að komast upp um deild

Knattspyrnufélag Austfjarða komst skrefi nær því að spila í næst efstu deild að ári með 0-2 sigri á Haukum í Hafnarfirði um helgina. Einherji vann mikilvægan sigur á Fjölni í annarri deild kvenna og á enn möguleika á að fara upp um deild.

Það var Esteban Selpa sem kom KFA yfir á 28. mínútu og Danilo Milenkovic skoraði annað markið á 52. mínútu.

En önnur úrslit helgarinnar gerðu það líka að verkum að frá KFA, sem er í öðru sæti, niður í næstu sæti er orðinn þriggja stiga munur. Þar eru ÍR og Víkingur Ólafsvík. Stórleikur er framundan um næstu helgi þegar ÍR og KFA mætast í næst síðustu umferðinni.

Þar á eftir kemur Höttur/Huginn með 33 stig. Heiðar Logi Jónsson skoraði eina markið í 1-0 sigri á KV á Vilhjálmsvelli um helgina á 54. mínútu. Liðið mætir efsta liðinu, Dalvík/Reyni, á föstudagskvöld. Dalvíkurliðið hefur 39 stig.

Einherji er áfram í baráttunni um að komast upp úr annarri deild kvenna eftir 2-1 sigur á Fjölni á Vopnafirði um helgina. Claudia Maria Daga Merino skoraði bæði mörkin rétt fyrir leikhlé. Gestirnir minnkuðu muninn á 80. mínútu en tíu mínútum fyrr hafði þjálfari þeirra fengið rauða spjaldið.

Einherji er í 6. sæti deildarinnar en það segir ekki alla söguna því aðeins munar tveimur stigum á ÍA í öðru sæti og Vopnafjarðarliðinu. Tvær umferðir eru eftir af deildinni.

Í Lengjudeild kvenna tapaði FHL 4-0 fyrir Fylki í Árbæ. FHL er í 8. sæti með 17 stig þegar einn leikur er eftir.

Úr leik Hattar/Hugins og KV um helgina. Mynd: Unnar Erlingsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar