Fótbolti: Róðurinn orðinn þungur hjá KFA

Möguleikar KFA á að komast upp úr annarri deild karla biðu alvarlega hnekki um helgina þegar liðið tapaði fyrir KFG. Öll austfirsku liðin töpuðu leikjum sínum um helgina.

KFA virtist aftur á ágætum stað eftir 8-2 sigur á Hetti/Huginn á miðvikudagskvöld. 4-1 tap í Garðabæ um helgina hefur á móti komið liðinu í afar erfiða stöðu. KFA var 2-0 undir í hálfleik og lenti 4-0 undir áður en Eiður Orri Ragnarsson skoraði á 40. mínútu.

Höttur/Huginn veitti KFA ekki hjálp um helgina en liðið tapaði 1-3 á heimavelli fyrir Víking Ólafsvík, en Víkingur er eitt þeirra liða sem er í samkeppni við KFA um að fylgja Selfossi upp um deild. Árni Veigar Árnason skoraði mark Hattar/Hugins á 39. mínútu, strax eftir annað mark gestanna. Þanig var staðan þar til um kortér var eftir af leiknum.

Úrslitin þýða að möguleikar Hattar/Hugins á að komast upp eru aðeins tölfræðilegir. Liðið er í sjötta sæti með 27 stig eftir þrjú töp í röð.

KFA er í fimmta sæti með 31 stig. Vandamálið er að munurinn í næstu lið eru fjögur stig og fimm stig í Völsung í öðru sætinu og topplið Selfoss er formlega utan seilingar. Þetta þýðir að margt þarf að ganga upp í síðustu þremur leikjunum til að KFA komist upp.

Það er þó ekkert ómögulegt. Liðið á næst heimaleik gegn Ægi og svo útileik gegn Kormák/Hvöt. Sigrar í þeim leikjum gætu gert síðasta leikinn, gegn Völsungi á heimavelli, að úrslitaleik um fyrstu deildar sætið.

Í fimmtu deild karla lauk Spyrnir keppni síðasta miðvikudag með 2-1 tapi gegn Samherjum í Eyjafirði. Ármann Davíðsson skoraði markið en hann átti gott sumar með níu mörkum í 13 leikjum. Spyrnir endaði í 6. sæti A-riðils með 18 stig.

FHL tapaði öðrum leik sínum í Lengjudeild kvenna í röð og fyrstu stigunum á heimavelli er liðið lá 1-4 gegn Grindavík. Selena Salas skoraði eina mark FHL á 77. mínútu, er liðið var komið 0-4 undir. Það breytir því ekki að liðið er öruggt með deildarmeistaratitilinn.

Í efsta hluta 2. deildar kvenna tapaði Einherji illa, 7-0, fyrir Haukum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar