Fótbolti: Tap Hattar/Hugins gegn Völsungi líka vont fyrir KFA
Staða austfirsku liðanna í baráttunni um að komast upp úr annarri deild karla í knattspyrnu versnaði um helgina. FHL þarf að bíða lengur eftir deildarmeistaratitlinum í Lengjudeildinni.Höttur/Huginn tók á móti Völsungi í annarri deild karla á Vilhjálmsvelli á föstudagskvöld. Leikurinn var þýðingarmikill þar sem Völsungur er í baráttunni um að fylgja Selfossi upp og var fyrir leikinn tveimur stigum á undan Hetti/Huginn.
Húsavíkurliðið skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu um miðjan seinni hálfleik. Annars bar það helst til tíðinda að Gunnar Einarsson, varamarkvörður Hattar/Hugins, var rekinn af bekknum í uppbótartíma.
KFA spilaði gegn Haukum í Hafnarfirði á laugardag og tapaði 3-1. Jacques Fokam Sandeu kom KFA yfir á tíundu mínútu en Haukar jöfnuðu skömmu síðar. Arek Grzelak var svo óheppinn að skora sjálfsmark snemma í seinni hálfleik og þriðja mark Haukar kom í lok leiks.
Úrslitin þýða að Völsungur er í öðru sæti deildarinnar með 32 stig þegar fimm umferðir eru eftir. KFA er í fimmta sæti með 28 stig og Höttur/Huginn í sjötta sæti með 27 stig. Víkingur Ólafsvík og Þróttur Vogum eru einni í þessum pakka. Austfjarðaliðin þurfa hins vegar nú orðið tvo leiki til að ná Völsungi. KFA tekur á móti Völsungi í lokaumferðinni.
En fyrst er það nágrannaslagur KFA og Hattar/Hugins á miðvikudagskvöld klukkan 18:00. Leikurinn er opnunarleikur á endurbættum Norðfjarðarvelli, en nýbúið er að leggja nýtt gervigras á hann. Væntanlega ræður sá leikur líka hvort liðið hangir áfram í baráttunni um að fara upp.
Spyrnir spilaði sinn síðasta heimaleik í fimmtu deild þetta sumarið. Liðið tapaði 1-2 fyrir Álftanesi. Ármann Davíðsson minnkaði muninn á 52. mínútu en gestirnir voru 0-2 yfir í hálfleik.
FHL mistókst að tryggja sér sigur í Lengjudeild kvenna. Eftir 11 sigurleiki í röð var komið að tapi gegn Gróttu á útivelli, en Seltjarnarnessliðið er í öðru sæti. FHL lék án markahrókanna Emmu Hawkins og Samönthu Smith, sem fór frá liðinu eftir að það tryggði sér sæti í úrvalsdeild um síðustu helgi. Grótta vann 1-0 með marki snemma í seinni hálfleik.
Á Vopnafirði hóf Einherji leik í A-úrslitum annarrar deildar kvenna með 1-1 jafntefli gegn ÍH. Sara Líf Magnúsdóttir jafnaði á fimmtu mínútu uppbótartíma.
Mynd: Unnar Erlingsson