Fótbolti: Tveimur deildum lokið

Riðlakeppni fjórðu deildar karla og deildarkeppni annarrar deildar kvenna lauk um helgina. Framundan eru úrslitakeppnir þar. Karlalið Einherja fór taplaust í gegnum riðilinn.

Einherji lauk keppni með 14 sigra og eitt jafntefli. Síðasti leikurinn var gegn Samherjum á Hrafnagilsvelli um helgina og vann Einherji hann 0-1 með sjálfsmarki í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Einherja bíður nú úrslitakeppni sem hefst eftir tvær vikur á leik gegn sigurliðinu úr umspili GG og Árborgar. Einherji kemur þar inn í umspil átta liða þar sem tvö fara upp í þriðju deild en hin fara í nýja fjórðu deild.

Hamrarnir, sem enduðu í öðru sæti, urðu eina liðið í sumar til að ná stigi af Einherja. Vopnafjarðarliðið gerði reyndar 2-2 jafntefli við BN í lok júlí en var dæmdur 3-0 sigur þar sem BN notaði ólöglega leikmenn. Hamrarnir fara í umspil um sæti í úrslitakeppninni.

Spyrnir endaði í þriðja sæti riðilsins eftir 3-0 sigur á BN á Fellavelli á föstudagskvöld. Fyrstu tvö mörk Spyrnis voru í glæsilegri kantinum. Steinþór Hrímnir Aðalsteinsson lék á tvo áður en hann hamraði boltann upp í nærhornið á 51. mínútu og Finnur Huldar Gunnlaugsson sendi aukaspyrnu utan af kanti í þverslána og inn á 65. mínútu. Eyþór Magnússon skoraði þriðja markið á 86. mínútu áður en Arnór Berg Grétarsson hjá BN fékk sitt annað gula spjald í uppbótartíma.

Spyrnir leikur í nýrri fimmtu deild á næsta ári. Í hana fara liðin úr sætum 3. – 6. þeirra riðla fjórðu deildarinnar sem átta lið spiluðu í nú í sumar. Lið úr sætum 4 og 5 í sex liða riðlunum tveimur spila um tvö laus sæti í fimmtu deildinni. Leikið verður heima og heiman næstu tvo laugardaga og mætir BN þar Rangæingum.

Höttur/Huginn áfram á beinu brautinni

Kvennalið Einherja lauk keppni í 2. deild kvenna á 1-3 tapi gegn ÍR á Vopnafjarðarvelli. Viktória Szeles minnkaði muninn eftir tíu mínútur í seinni hálfleik. Liðið endaði þar með í 9. sæti með 12 stig. Deildin skiptist nú í tvennt þar sem efstu sex liðin og neðstu fimm liðin spila sín á milli um endanlega niðurröðun. Eitt lið, KÁ sem endaði langneðst, tekur ekki þátt í umspilinu. Það verður leiki næstu fimm laugardaga og byrjar Einherji á heimaleik gegn Hamri.

Í næst efstu deild kvenna tapaði Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir fyrir Tindastóli á heimavelli á laugardag 2-3. Linli Tu kom FHL yfir á 33. mínútu og þannig hélst staðan þar til 17 mínútur voru eftir. Þá jafnaði Tindastóll og komst síðan yfir fimm mínútum síðar. Tvær mínútur liðu þar til Linli skoraði sitt annað mark og jafnaði á ný. Sigurmark Tindastóls kom svo á 89. mínútu.

Sauðárkróksliðið er í öðru sæti og keppir við HK og FH um efstu tvö sætin og þar með sæti í úrvalsdeild. Tindastóll hefur 34 stig en Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir er í fimmta sæti með 25 stig og telst þar með enn hafa tölfræðilega möguleika á að komast upp.

Sigurganga Hattar/Hugins í annarri deild karla heldur áfram. Í gær vann liðið Hauka 2-1 og skaust þar með fram fyrir upp í 5. sætið á markahlutfalli. Alberto Lopez kom Hetti/Huginn yfir á 9. mínútu en gestirnir jöfnuðu á 26. mínútu. Rafael skoraði sigurmarkið í uppbótartíma.

KFA komst yfir gegn ÍR í Breiðholtinu á 17. mínútu með marki Inigo Albizuri. Þannig var staðan fram til 58. mínútu að heimaliðið jafnaði og bætti síðan við þremur mörkum síðasta kortérið. ÍR skildi þar með KFA eftir í fallbaráttunni, liðið er þó sjö stigum á undan Reyni Sandgerði sem er efra liðið í fallsætunum tveimur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar