Frá Vestmanneyjum til Vopnafjarðar: Hélt að maðurinn væri að grínast
Það kom Yngva Borgþórssyni, þjálfara karlaliðs Einherja í knattspyrnu, verulega á óvart þegar honum var boðið að tala við þjálfun Vopnafjarðarliðsins í byrjun árs. Hann sér ekki eftir að hafa sagt já við furðulegu boði.
„Ég fékk símtal í janúar frá manni að nafni Einar Björn sem sagðist vilja bjóða mér að taka við þjálfun á Einherja. Ég hélt nú að þessi maður væri bara að grínast mér, enda aldrei komið nálægt þjálfun áður.
Hann sagði mér að að hugsa málið og hann myndi hafa samband við mig eftir viku. Ég var nú ekkert að taka þessu símtali sérstaklega alvarlega, en þótti þetta þó spennandi.
Viku seinna hringdi Einar Björn aftur með virkilega gott tilboð sem ég gat eiginlega ekki látið framhjá mér fara og því ákvað ég að stíga einfaldlega út fyrri þægindarammann og skella mér á þetta.“
Þannig segir Yngvi frá samningaviðræðum sínum við Einherja í samtali við Eyjafréttir. Hann fæddur Eyjamaður og spilaði sinn fyrsta leik með ÍBV 17 ára gamall. Tuttugu ára ferillinn var að mestu þar en Yngvi kom einnig við hjá Víkingi Reykjavík og Dalvík áður en hann fór til KFS síðasta sumar.
Í samtali við Eyjafréttir lýsir hann ánægju með lífið á Vopnafirði en Yngvi mun vera fimmti Eyjamaðurinn til að þjálfa Einherja. „Þetta er ekkert frábrugðið lífinu í Eyjum nema ég get farið þegar ég vil og komið þegar ég vil og Landeyjahöfn er ekki helsta umræðuefnið á kaffistofunni.“
Þess í stað er talað um fótboltann. „Hér hafa flest allir skoðanir á fótboltanum og það er ótrúlega mikill stuðningur við fótboltaliðin hér. Maður finnur það vel eftir leiki, þegar maður fer eitthvað út kemur fólk til manns og ræðir hvað betur hefði mátt fara í tapleikjum og faðmar mann og hrósar þegar vel gengur.
Það er mikill metnaður hjá klúbbnum þó svo þetta sé allt frekar smátt í sniðum. Það er magnað í svona litlu bæjarfélagi að hægt sé að halda úti meistaraflokk bæði í kvenna- og karlafótboltanum.“
Yngvi til hægri ásamt Víglundi Páli Einarssyni sem þjálfaði Einherja í fyrra. Mynd: Magnús Már Þorvaldsson