„Frábært væri að fá 25 sjálfboðaliða“
„Það lítur út fyrir mjög gott hjólaveður, sól og hægan vind,“ segir María Jóngerð Gunnarsdóttir, sumarstarfsmaður UÍA, um veðurútlit fyrir hjólakeppnina Tour de Orminn sem fram fer á Héraði á laugardaginn.
Tour de Ormurinn var fyrst haldinn sumarið 2012. Hjólaleiðir eru tvær, annars vegar 68 km hringur sem kallast Ormurinn langi en hann liggur umhverfis Löginn. Hins vegar eru það 103 km sem kallast Hörkutólahringurinn og liggur hann inn í botn Fljótsdals, en í báðum er rás- og endamark á Egilsstöðum.
Bæði er hægt að taka þátt í einstaklings- og liðakeppni, en keppnin er opin öllum 14 ára og eldri. Tour de Ormurinn er hluti af Álkarlinum, þriggja þrauta keppni sem samanstendur auk þess af Urriðavatnssundinu og Barðsneshlaupinu.
Um 40 þátttakendur skráðir til leiks
Sem stendur hafa 40 þátttakendur skráð sig til leiks en opið er fyrir skráningar til klukkan átta í kvöld. María Jóngerð segir þátttöku heldur lakari en í fyrra en þá hjóluðu um 60 manns í keppninni.
„Vel getur verið að skráning taki kipp núna undir kvöld. Okkur vantar hins vegar sárlega fleiri til þess að vinna með okkur að brautarvörslu og öðru sem til fellur á keppnisdaginn sjálfan, en frábært væri að fá 25 sjálfboðaliða,“ segir María Jóngerð vongóð og hvetur alla sem hafa áhuga að hafa samband við skrifstofu UÍA, í gegnum Facebooksíðuna, netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða í síma 471-1353.