„Framtíðin er björt í sundinu fyrir austan“

Hið árlega Hennýjarmót í sundi fór fram í sundlaug Eskifjarðar um helgina og er mótið það stærsta til þessa.


Hennýjarmótið var fyrst haldið árið 2012 í minningu Þorbjargar Hennýjar Eiríksdóttur.

„Okkur þykir mjög vænt um að geta heiðrað minningu hennar með svona flottu sundmóti,“ segir Björnfríður Ólafía Magnúsdóttir, sundþjálfari hjá Austra.

Björnfríður segir mótið í ár hafa verið stærra en áður og lagt upp með að hafa það löglegt þannig að keppendur fengju tíma sína skráða hjá Sundsambandi Íslands.

„Mótið gekk afar vel í ár og 61 keppandi frá fimm félögum var skráður til leiks. Við bættum þremur nýjum greinum við að þessu sinni, 100 metra bringusundi, 100 metra skriðsundi og 100 metra fjórsundi. Allt gekk þetta vel og er komið til að vera.

Til þess að standa sem best að tímatöku fengum við til okkar þrjá einstaklinga frá Sundsambandinu, þau Ingibjörgu Kristinsdóttur, Emil Harðarson og Ólaf Baldursson, en auk þess að hjálpa okkur við mótið voru þau með fræðslu fyrir foreldra og kennslu á nýtt sundforrit sem auðveldar allar skráningar kringum mótahald og Austri er kominn með aðgang að.“


Fulltrúar að austan á móti á Akranesi í sumar

Björnfríður er ánægð með helgina. „Keppendur tíu ára og yngri voru 30 talsins sem sýnir að framtíðin er björt hér fyrir austan.

Austri sigraði stigakeppnina og Þróttur í Neskaupstað var í öðru sæti. Einnig eru nokkrir mjög sterkir einstaklingar í félögunum hér eystra í 11-16 ára flokki sem hafa unnið sér inn þátttökurétt á Aldursflokkameistaramóti Íslands sem haldið verður á Akranesi í sumar.

Það er ekki sjálfsagt að geta haldið svona mót og við viljum þakka kærlega fyrir allan stuðninginn og aðstoðina frá foreldrum, starfsfólki sundlaugarinnar, sjálboðaliðum, styrktaraðilum og öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við skipulagningu mótsins.“

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar