Frjálsar: Góður árangur Gabríels Glóa og Hafdísar á MÍ 15-22 ára

Keppendur UÍA, þau Hafdís Anna Svansdóttir og Gabríel Glói Freysson, náðum góðum árangri á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum 15-22ja ára. Hafdís Anna keppti svo einni á Meistaramóti fullorðinna um síðustu helgi.

Besti árangur þeirra voru gullverðlaun Hafdísar Önnu í 400 metra hlaupi 16 ára stúlkna, þar sem hún hljóp á 1 mínútu og 78 sekúndubrotum. Hún varð einnig önnur í 200 metra hlaupi á 26,93 sekúndum og í 800 metra hlaupi 2:43,57 mínútum. Þá stökk hún 4,3 metra í langstökki sem dugði henni í fjórða sætið þótt hún væri nokkuð frá sínu besta.

Gabríel Glói átti góða helgi að því leyti að hann náði sínum besta árangri í flestum þeirra greina sem hann tók þátt í. Hann varð annar í flokki 15 ára pilta í 800 metra hlaupi á tímanum 2:21,48 mínútum og sömuleiðis í 300 metra hlaupi á 38,03 sekúndum.

Í 80 metra hlaupi varð hann þriðji á 9,70 sekúndum og bætti sig nokkuð frá undanrásunum. Hann fékk einnig bronsverðlaun í spjótkasti þegar hann kastaði 34,04 metra.

Hafdís Anna var síðan einni keppandi UÍA á Meistaramóti fullorðinna sem haldið var á Akureyri um síðustu helgi. Hún varð fjórða í 400 metra hlaupi á tímanum 1:01,42. Hafdís Anna tók einnig þátt í 200 metra hlaupi en komst ekki í úrslit með tímann 28,04 sekúndur.

Þá var á báðum mótunum fyrrum félagi þeirra úr UÍA, Birna Jóna Sverrisdóttir, sem nú æfir og keppir með ÍR en hún er í afrekshópi Frjálsíþróttasambandsins fyrir árangur sinn í sleggjukasti. Hún vann sinn flokk á MÍ 15-22 ára þegar hún kastaði þriggja kílóa sleggju 56,93 metra. Í fullorðinskeppninni er keppt með þyngdi sleggju, fjögurra kílóa. Þar kastaði Birna Jóna 48,06 metra og varð fjórða.

Gabríel Glói kemur í mark í spretthlaupi. Mynd: FRÍ/Hlín Guðmundsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.