Frjálsíþróttir: Tveir Íslandsmeistarar að austan

Keppendur UÍA fóru heim með tvenn gullverðlaun af Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum innanhúss 11-14 ára um helgina.

„Þetta var mjög flott ferð. Flestir bættu sig og söfnuðu í reynslubankann. Við vorum með flotta krakka og flotta foreldra,“ segir Hjördís Ólafsdóttir, formaður frjálsíþróttadeildar Hattar, sem fór með hópnum suður.

Hrafn Sigurðsson og Björg Gunnlaugsdóttir fengu gullverðlaun í 600 metra hlaupi í flokki 13 ára og höfðu nokkra yfirburði yfir mótherja sína. Björg kom í mark á tímanum 1:45,02 mín og Hrafn á 1:48,52 mín.

Björg hlaut verðlaun í öllum þeim greinum sem hún tók þátt í. Hún náði silfri í 60 metra hlaupi á tímanum 8,69 sek og brons í langstökki þar sem hún stökk 4,35 metra.

Fjórir af fimm keppendum UÍA náðu á verðlaunapall. Birna Jóna Sverrisdóttir fékk silfur í kúluvarpi 12 ára stúlkna þar sem hún kastaði 8,54 metra og Steinar Aðalsteinsson brons í kúluvarpi 12 ára pilta þar sem hann kastaði 7,09 metra.

Þá varð UÍA í níunda sæti í stigakeppni, sem Hjördís segir að sé góður árangur miðað við fjölda keppenda. Hún bendir einnig á að árangurinn sé góður í ljósi þess að helstu keppinautarnir geti æft á tartani allt árið, ólíkt keppendum að austan sem síðast náðu slíkri æfingu í hitabylgjunni í janúar.

Aðstaðan kemur líka fram í árangrinum. Keppendunum að austan, sem allir æfa hjá Hetti á Egilsstöðum, gekk best í hlaupagreinum og kúluvarpi en verst í langstökki sem erfitt er að æfa eystra á veturna.

Hjá deildinni æfa 24 börn á aldrinum 11-14 ára en aðeins brot þeirra fór á mótið. „Við vonumst til að halda áfram að vaxa og styrkja hópinn. Það æfir töluvert af krökkum hjá okkur sem langar ekki að keppa og við þurfum að finna hvernig við finnum þeim áskoranir þannig þau haldist í starfinu,“ segir Hjördís.

Hrafn og Björg með gullverðlaun sín. Mynd: Sigurður Magnússon

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.