Funheitur Andrés gaf Þórsurum engar afmælisgjafir: Myndir

hottur_thorak_karfa_09022012_0062_web.jpgHinn bráðefnilegi Andrés Kristleifsson átti stórleik þegar Höttur vann Þór frá Akureyri 82-75 í baráttuleik í fyrstu deild karla í körfuknattleik á Egilsstöðum á fimmtudagskvöld. Með sigrinum festi Höttur sig í sessi í fimmta sæti deildarinnar.

 

Gestirnir frá Akureyri ætluðu sér stærri hluti á 54. afmælisdegi körfuknattleiksdeildarinnar og skoruðu fjögur fyrstu stigin og náði mest 4-12 forskoti í fyrsta leikhluta. Það varð reyndar þeirra stærsta forskot í leiknum. Hattarmenn bitu til baka og voru yfir 18-17 eftir leikhlutann.

Síðustu tvö stigin skoraði hinn tæplega sautján ára Andrés Kristleifsson. Sá varð, áður en yfir lauk, stigahæsti leikmaður Hattar, sá eini sem skoraði yfir tuttugu stig þetta kvöld. Tvísýnt var á tímabili hvort hann gæti spilað. Hann lá heima veikur á meðan samherjar hans æfðu kvöldið fyrir leik og mældist enn með 38,5°C hita í hádeginu á leikdag. Hann lét það ekki á sig fá og spilaði 35 mínútur, þótt hann virtist orðinn fremur þreyttur í lokin.

hottur_thorak_karfa_09022012_0036_web.jpgHattarmenn gerðu sig líklega til að kafsigla gestina í öðrum leikhluta þegar þeir náðu mest tíu stiga forskoti, 32-22. Miðvörðurinn Trevor Bryant fór mikinn í vörninni og varði þrjú skot í leikhlutanum. Þórsarar komu til baka seinni hluta fjórðungsins og staðan í hálfleik var 39-37.

Þriggja stiga körfur Andrésar og þjálfarans Viðars Arnar Hafsteinssonar komu Hetti í 45-39 strax í upphafi þriðja leikhluta. Þá snérist leikurinn gestunum í hag og þeir komust í 49-53 áður en Hattarmenn tóku leikhlé. Það bar árangur því þeir snéru leiknum við og voru 62-59 yfir eftir þriðja leikhluta.

hottur_thorak_karfa_09022012_0001_web.jpgHattarliðið var í vandræðum vegna villna tveggja lykilmanna. Mike Sloan og Bjarki Oddsson voru snemma komnir með þrjár villur hvor og spiluðu því lítið. Bjarki fór að lokum út af í fjórða leikhluta en Mike tókst að klára leikinn og skipti miklu máli undir lokin. Það hjálpaði líka Hetti þegar miðvörður Þórsara, Darko Milosevic, fékk sína fimmtu villu skömmu fyrir leikslok.

Hattarmenn náðu mest níu stiga forskoti um miðjan lokafjórðunginn en það minnkuðu Þórsarar í 73-70. Þá fór Darko út af og síðustu tvær mínúturnar héngu Hattarmenn á forskoti sínu.

„Heilt yfir var þetta okkar besta frammistaða í vetur þrátt fyrir smá hnökra á litlum köflum,“ sagði Viðar Örn í leikslok. „Þórsliðið var búið að vinna fimm leiki í röð þar til það tapaði fyrir KFÍ í framlengingu. Þetta var okkar leikur allan tímann.“

hottur_thorak_karfa_09022012_0021_web.jpgViðar hrósaði sérstaklega hinum unga Andrési sem skoraði 24 sig í leiknum. „Hann stóð sig það vel að ég skutla honum heim eftir leik. Hann er ekki enn kominn með bílpróf. Ef hann spilar svona í hverjum leik þarf hann ekkert að mæta á æfingar.

Höttur er í fimmta sæti deildarinnar, jafn Breiðabliki með 16 stig. Liðin í öðru til fimmta sæti öðlast sæti í úrslitakeppninni í vor. Í sjötta sæti er ÍA með tólf stig. Þrjár umferðar eru eftir af deildinni og á fimmtudagskvöld kemur Hamar austur í Egilsstaði.

„Þessi úrslit þýða að Þórsararnir eiga ekki lengur möguleika á að ná okkur en það eru bara toppleikir framundan.“

Næstir á eftir Andrési í stigaskorinu voru Viðar Örn með 17 stig og Sloan með 13. Trevon Bryant átti stórleik í vörninni, varði átta skot og tók alls tuttugu fráköst. Í liði Þórs skoraði Eric James Palm 31 stig.

hottur_thorak_karfa_09022012_0006_web.jpghottur_thorak_karfa_09022012_0016_web.jpghottur_thorak_karfa_09022012_0026_web.jpghottur_thorak_karfa_09022012_0028_web.jpghottur_thorak_karfa_09022012_0030_web.jpghottur_thorak_karfa_09022012_0041_web.jpghottur_thorak_karfa_09022012_0052_web.jpghottur_thorak_karfa_09022012_0066_web.jpghottur_thorak_karfa_09022012_0071_web.jpghottur_thorak_karfa_09022012_0092_web.jpghottur_thorak_karfa_09022012_0094_web.jpghottur_thorak_karfa_09022012_0105_web.jpg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar