Fyrrverandi leikmaður FHL á HM: Hún var langbest í liðinu

Allyson Swaby, sem spilar með Jamaíku í heimsmeistarakeppni kvenna í knattspyrnu, lék með Fjarðabyggð/Hetti/Leikni í annarri deild kvenna sumarið 2018. Fyrrum liðsfélagi hennar segir hana hafa verið virkilega góða.

„Hún var mjög sterk, fljót og góð með bolta. Við sáum strax að hún var alltof góð fyrir deildina. Hún var langbesti leikmaðurinn í liðinu þetta sumar.

Hún spilaði sem miðvörður en var annars sett þangað sem okkur vantaði aðstoð. Ef okkur vantaði mörk þá var hún sett fram. Ég man eftir fyrsta deildarleiknum hennar með okkur, útileik gegn Gróttu þar sem við vorum 3-1 undir. Hún fór fram og skoraði tvö,“ segir Jóhanna Lind Stefánsdóttir sem spilaði það sumar með FHL.

Allyson kom til FHL, eins og margir aðrir leikmenn, úr bandaríska háskólaboltanum. Hún er fædd í Bandaríkjunum en spilar fyrir Jamaíka. Yngri systir hennar, Chantelle, er einnig í hópnum.

Allyson spilaði alls 12 leiki með FHL þetta sumar og skoraði í þeim fimm mörk, sem telst mjög gott fyrir miðvörð. „Hún var þá kominn inn í landslið Jamaíku sem varamaður,“ rifjar Jóhanna Lind upp.

Spilað með bestu liðum Evrópu


Eftir að Íslandsdvölinni lauk skipt Allyson yfir í Roma á Ítalíu, sem var þá að spila sitt fyrsta tímabil í efstu deild. Hún varð ítalskur bikarmeistari 2021 en skipti um haustið yfir til Angel City í bandarísku deildinni. Í janúar var hún lánuð til Paris Saint-Germain, eins besta liðs Evrópu en það komst í fjórðungsúrslit Meistaradeildarinnar.

Swaby-systurnar voru saman í vörninni þegar Jamaíka knúði fram 0-0 jafntefli gegn Frakklandi á sunnudag. Það eru ágæt úrslit því franska liðið var töluvert betra. Jamaíka spilar næst gegn Panama á laugardag. „Ég horfði á fyrsta leikinn og hún var mjög traust. Það segir sitt að hún hafi verið í vörninni í þessum leik þar sem Jamaíka hélt hreinu þrátt fyrir að Frakkarnir væru miklu betri,“ segir Jóhanna.

Nokkuð hefur gustað um Jamaíska-liðið, reggístelpurnar, sem hafa gagnrýnt Knattspyrnusamband Jamaíku fyrir slælega umgjörð og að svíkja leikmenn um laun. Allyson hefur á samfélagsmiðlum deilt yfirlýsingum leikmanna enda einn foringja þeirra. Jóhanna segir að Allyson hafi fallið vel inn í FHL hópinn á sínum tíma. „Hún var fín í hóp, skemmtileg og fyndin.“

Sjálf er Jóhanna Lind nýkomin heim til FHL sem lánsmaður frá Víkingi, sem er á toppi Lengjudeildarinnar þar sem FHL er í 7. sæti. Hún spilaði sinn fyrsta leik með liðinu í 4-2 sigri gegn Grindavík um helgina. „Mér líst vel á það framundan er. Hópurinn er mjög flottur og mórallinn góður.“

Mynd: Dianaatflourish, CC BY-SA 4.0

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.