Fyrsta ferð Hrafnkels Freysgoða á Íslandsmót fullorðinna í karate
Þrír iðkendur úr Hrafnkeli Freysgoða á Breiðdalsvík tóku þátt í Íslandsmótinu í karate um síðustu helgi. Þetta er í fyrsta sinn sem félagið sendir keppendur á Íslandsmót fullorðinna og þeir komu ekki tómhentir heim.„Við skemmtum okkur konunglega. Arna Silja (Jóhannsdóttir) og Silja Dögg (Sævarsdóttir) byrjuðu að æfa fyrir um ári og við settum okkur það markmið að fara á Íslandsmót.
Við höfum æft ötullega til að ná settu marki, eða eins stíft og fullorðnar konur í vinnu og með heimili, geta leyft sér,“ segir María Helga Guðmundsdóttir, karateþjálfari á Breiðdalsvík.
Þær kepptu í kata en þar sýna keppendur tækniæfingar án þess að glíma við andstæðing. „Þú gerir röð fyrirfram ákveðinna hreyfinga. Sumir ímynda sér andstæðing en þetta er frekar safn tækniæfinga frekar en sviðssetning á bardaga.
Keppandi getur bæði gert æfingarnar einn en líka þrír saman í hópæfingar. Þá er bæði horft til þess hversu vel þeir gera æfingarnar en líka samhæfingar,“ segir María Helga
Hún kom sjálf heim með bronsverðlaun í einstaklingskeppni auk þess sem þær þrjár komu með bronsverðlaun í hópkata.
Næsta stóra verkefni Hrafnkels Freysgoða er þátttaka í Íslandsmóti barna- og unglinga síðustu helgina í apríl. Félagið fór í fyrsta sinn með hóp þangað í fyrra. „Það eru stífar æfingar núna og mikil stemming.“
Karate fullorðinna er nýlega farið af stað og var „100% mæting“ úr því á Íslandmótið, eins og María Helga segir. Nýir iðkendur eru alltaf velkomnir en æft er í íþróttahúsinu á Breiðdalsvík alla fimmtudaga klukkan 17:45. Næsta æfing er í fyrstu viku eftir páska.