Fyrstu álkarlarnir verðlaunaðir
Þrjú luku um helgina austfirsku áskoruninni álkarlinum og ein í viðbót náði sér í nafnbótina hálfkarl. Þau eru þau fyrstu til að hljóta nafnbótina.
Álkarlarnir eru Svanhvít og Jakob Antonsbörn frá Stöðvarfirði og Fellbæingurinn Andri Guðlaugsson. Til að teljast álkarl þarf að synda, hlaupa og hjóla lengstu vegalengd í Urriðavatnssundi, Barðsneshlaupi og Tour de Orminum en síðastnefnda keppnina var haldin um helgina.
Guðbjörg Björnsdóttir frá Egilsstöðum hlaut hálfkarlinn en í öllum keppnunum eru styttri vegalengdir í boði, hálft sund, hálft hlaup og 68 km hringur í hjólakeppninni.
Tæplega 60 þátttakendur tóku þátt í Tour de Orminum á laugardag. Brautarmet var sett í 103 km hringnum þar sem Elvar Örn Reynisson kom fyrstur yfir línuna á 3:08,33 klst., sjónarmun á undan félaga sínum Reyni Magnússyni. Í kvennaflokki var Guðrún Sigurðardóttir fremst á 4:02,43.
Í 68 km hringnum var einnig æsileg keppni. Helgi Björnsson kom fyrstur í mark á 2:06,43 en Hjalti Þórhallsson tveimur sekúndubrotum síðar eftir endasprett. Í kvennaflokki varð Steinunn Erla Thorlacius fyrst á 2:28,03 en Freydís Heba Konráðsdóttir önnur á 2:28,20.
Fremstur unglinga varð Bjartmar Pálmi Björgvinsson á 2:36,21. Í liðakeppni unnu Lommarnir (Magnús Baldur, Unnar og Bjartur) á 2:33,55 og Hjólakraftsstrákarnir Friðbjörn, Unnar og Rafael Rökkvi liðakeppni unglingaliða á 3:13,07
Guðbjörg, Andri, Dandý, Jakob með lukkudýrinu Spretti Sporlanga.