Fyrstu heimaleikir Þróttar: Stefnt á undanúrslit í vetur
Blaklið Þróttar spila sína fyrstu heimaleiki um helgina þegar Stjarnan kemur í heimsókn. Talsverðar breytingar hafa orðið á báðum liðunum í sumar en þjálfararnir eru bjartsýnir á hægt verði að koma á óvart.
Í karlaliðinu eru Matthías Haraldsson, Atli Freyr Björnsson, Þórarinn Jónsson og Þórarinn Ómarsson horfnir á braut.
Í staðinn eru komnir Argentínumaðurinn Jorge Basualdo, sem þjálfar blak á Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði. Ana Vidal, sem þjálfar áfram karlaliðið, lýsir honum sem frábærum kantsmassara sem komi með mikinn kraft inn í sóknarleikinn.
Eins eru komnir Birkir Freyr Elvarsson frá Höfn og Galdur Máni Davíðsson frá Seyðisfirði. Þá eru leikmenn úr þriðja flokki með á æfingum. „Tilgangurinn ekki að láta þá spila heldur leyfa þeim að vera hluti af hópnum.“
Í fyrra spilaði liðið til úrslita í bikarkeppninni og í undanúrslitum Íslandsmótsins. „Væntingarnar eru svipaðar og í fyrra, að komast í undanúrslit í öllum keppnum. Ef við spilum jafn vel og í fyrra getum við vel komist í úrslit bikarsins.
Okkur vantar sterkari smassara í sóknina þannig við einbeitum okkur að vörninni. Ég held að deildin verði jafnari en hún var í fyrra.“
Miklar breytingar hafa orðið á kvennaliðinu þar sem Ana er orðinn elst en þær Anna Katrín Svavarsdóttir, Hjördís María Óskarsdóttir og Sigrún Sigurðardóttir verða ekki með. Ásdís Jóhannsdóttir er meidd og tekur Valdís Kapitola Þorvarðardóttir við frelsingjastöðunni. Ekki má heldur gleyma að Ana og Borja Gonzalez hafa tekið við þjálfuninni af Matthíasi Haraldssyni.
María Rún Karlsdóttir og Gígja Guðnadóttir, báðar fæddar 1998 eru því næst elstar. Stelpurnar fæddar árið 2000 sem þóttu spila mjög vel í fyrra eru áfram og þrjár stelpur fæddar 2001 eru í hópnum.
Æfingaálagið hefur verið aukið og segir Ana að horft sé til framtíðar með liðið. „Við erum með 12 stelpur á hverri æfingu og þær missa aldri úr. Þær hafa strax tekið framförum eftir að við hófum æfingar og virka spenntar fyrir vetrinum. Þetta er því spennandi fyrir okkur sem þjálfara.“
Líkt með karlaliðið er stefnt á undanúrslit deildarinnar og möguleg bikarúrslit. Áherslan er hins vegar ekki á úrslit leikjanna.
„Við æfum eins og með þriðja flokks lið og leggjum mikla áherslu á tæknina. Við viljum leggja áherslu á okkar eigin leik og að liðið okkar nái vel saman. Síðar í vetur getum við kannski farið að spá í hvað mótherjarnir eru að gera. Aðalmarkmiðið er hins vegar ekki að vinna heldur að njóta þess að spila og vera með góðan hóp.“
Kvennaliðin leika klukkan 14:00 á morgun og 11:30 á sunnudag. Karlaliðin leika klukkan 16:00 á morgun og 13:00 á sunnudag eða strax eftir að kvennaleikjunum lýkur.