Orkumálinn 2024

Gat valið á milli Seyðisfjarðar og Flórída

Margir Austfirðingar kannast við Ljubisa Radovanovic, eða bara Ljuba, sem þjálfað hefur yngri flokka Hattar í knattspyrnu undanfarin ár og spilaði þar áður og þjálfaði hjá Huginn Seyðisfirði. Ljuba er fæddur í Serbíu en kom fyrst til landsins til að spila árið 2000. Hann segir það hafa verið mikil viðbrigði að koma inn í íslenska boltann sem þá hafi snúist mest um að sparka langt, hlaupa og berjast.

„Ég spilaði fyrst með Selfossi eitt sumar en fór aftur til Serbíu að því loknu. Ég var með samning um að koma aftur að ári en þetta var erfiður tími hjá mér því faðir minn var mikið veikur og því snéri ég ekki aftur,“ segir Ljuba.

Hann er alinn upp í Niš, um 350 þúsund manna borg í suðaustanverðri Serbíu. „Ég byrjaði sex ára að æfa fótbolta og spilaði með sama liðinu þar til ég komst upp í meistaraflokk. Borgin er með öflug lið, ein tíu talsins og ég spilaði með fjórum þeirra.“

Ljuba lauk grunnnámi í rafvirkjun en starfaði aldrei í faginu heldur einbeitti sér að fótboltanum. Tíundi áratugurinn var þó erfiður fyrir serbnesk íþróttafólk út af borgarastríðinu milli ríkjanna sem áður mynduðu Júgóslavíu.

Erfitt að æfa eftir vinnu

Ljuba segir að margir serbneskir knattspyrnumenn hafi komið til Íslands um aldamótin í gegnum þjálfara frá borginni sem um tíma hafði verið á Íslandi. Hann var þar á meðal. Hann segir það hafa verið mikil viðbrigði að koma í íslenska boltann.

„Mér fannst gaman að spila hér en sérstakt. Í Evrópu eru leikmennirnir tæknilega flinkari og spila með boltann á jörðinni. Hér var boltanum sparkað fram, hlaupið og barist allan tímann. Það hefur þó lagast. Að spila í jafn miklum vindi og hér var líka nýtt fyrir mér.

Það var líka sérstakt fyrir mig að vinna með fótboltanum. Ég vann frá 8-16 eða 9-17 og átti svo að mæta á æfingu klukkan 18. Ég var oft þreyttur fyrst en þetta vandist.“

Íslenskir þjálfarar fróðleiksfúsir

Ljuba segir framfarir í íslenskum fótbolta framsýni forustufólks knattspyrnuhreyfingarinnar að þakka og víðsýni íslenskra þjálfara. Þá hafi margt breyst til batnaðar þau ár sem Svíinn Lars Lägerbeck þjálfaði karlalandsliðið.

„Mér fannst hlutirnir snúast í 180 gráður á hans tíma. Knattspyrnusambandið hugsar til framtíðar og býður erlendum þjálfurum að koma hingað. Ég hef til dæmis nokkrum sinnum farið á ReyCup og þangað koma erlend lið. Íslenskir þjálfarar eru heldur ekki feimnir við að spyrja um hvað þeir geti gert betur. Við Serbarnir erum of öðruvísi, sumir okkar þjálfara telja sig vita allt og ekkert geta lært af öðrum en málið er að í gegnum allt lífið ertu alltaf að læra eitthvað nýtt.“

Góðar móttökur á Seyðisfirði

Ljuba kom aftur til Íslands 2005 og samdi þá við Huginn Seyðisfirði. Hann lék alls 60 leiki með liðinu til ársins 2010. Það var þó ekkert sjálfsagt að leiðin lægi aftur til Íslands. Í millitíðinni kom hann við í Rússlandi og síðan stóð valið milli Íslands og Bandaríkjanna.

„Faðir minn dó árið 2002 og tíminn í kjölfarið var mér erfiður, ég æfði ekki mikið þá. En síðan hringdi besti vinur minn, sem spilaði þá í Rússlandi og sagði mér að það væri búið að koma þangað eftir tvær vikur, félagið væri búið að kaupa miða handa mér. Ég notaði þennan tíma til að koma mér í form og var svo hjá liðinu í um mánuð. Það var fínn tími.

Síðan hringdi í mig maður sem hafði spilað með mér á Selfossi til að segja mér að Huginn vantaði leikmann og þar væri annar strákur sem hafði spilað með mér á Selfossi og vildi endilega fá mig. Sumarið áður hafði ég hitt vin minn, sem var þá að spila háskólabolta í Jacksonville í Bandaríkjunum. Hann sagði það vera mjög gaman og spurði hvort ég vildi ekki koma til að spila. Ég fór að safna upplýsingum um skólaferil minn og sendi þjálfurum í Bandaríkjum þær en akkúrat þá var hringt í mig frá Seyðisfirði.

Ég vissi ekki hvað ég átti að gera, að fara til Bandaríkjanna og læra og spila eða aftur til Íslands og spila og vinna. Þarna vorum við Aleksandra vorum þá byrjuð saman og ég vissi að ef ég færi til Íslands gæti ég komist auðveldlega heim eða hún komið til mín en það yrði erfiðra fyrir mig í Bandaríkjunum. Þess vegna valdi ég að koma aftur til Íslands.

Maðurinn sem fékk mig sagði mér að ég gæti spilað eitt sumar með Huginn og komist svo til liða í Reykjavík en svo fannst mér frábært að vera á Seyðisfirði. Þar spilaði ég með strákum sem skildu fótbolta, Brynjar Gestsson var góður þjálfari og það var gaman. Að auki vildi fólkið í bænum allt fyrir mig gera. Ég vann hjá Brimbergi og fólkið þar hjálpaði mér við að fá Aleksöndru til Íslands. Þess vegna varð ég áfram á Seyðisfirði.“

Best fyrir alla að ég lærði íslensku

Árið 2012 flutti Ljuba síðan í Egilsstaði. „Yfirþjálfarinn hjá Hetti hafði samband við mig og bauð mig að koma. Krökkunum sem æfðu fótbolta á Seyðisfirði fækkaði alltaf þannig að það var minna og minna hjá mér að gera við að þjálfa þar. Þess vegna sagði ég já,“ segir Ljuba sem vinnur í íþróttahúsinu auk þess að þjálfa þrjá flokka hjá Hetti.

Hann og Aleksandra hafa búið á Egilsstöðum síðan en þau eiga þrjár dætur. Ljuba segist ekki sjá fyrir sér að fjölskyldan flytji þaðan í bráð. „Við erum ekkert að hugsa um að fara aftur til Serbíu, kannski seinna. Mér líður vel hér með fjölskyldunni. Stelpurnar okkar eru allar fæddar hérlendis og eiga marga vini. Þeim þykir mjög vænt um Serbíu en vilja ekki flytja þangað strax.
Við förum þangað yfirleitt á hverju ári þótt ég eigi erfitt að komast með á sumrin þegar þær eiga helst frí því ég er að þjálfa.“

Það var ekki fyrsta verkefni Ljuba við komuna til landsins að læra íslensku en hann talar hana reiprennandi í dag. „Ef þú vilt búa í öðru landi þá verðurðu að læra tungumálið. Ég hafði ekki mikinn hug á að setjast að fyrstu fjögur árin sem ég bjó hér og lærði því ekki mikla íslensku. En það sagði við mig strákur úr liðinu að ég yrði einfaldlega að læra málið ef ég vildi vera hér. Ég hugsaði þetta smá stund áður en ég áttaði mig á að þetta væri hárrétt. Ég væri búinn að stofna hér fjölskyldu og fyrir alla væri betra að ég lærði málið,“ segir hann.

En hvort heldur Ljuba með Serbíu eða Íslandi ef löndin mætast í landsleik. „Þetta er erfið spurning,“ segir hann hlægjandi. „Ég er hálfur Serbi og hálfur Íslendingur. Ætli mér þætti ekki jafntefli best.“

Útgáfa Austurgluggans að þessu sinni er samstarfsverkefni Austurbrúar og Útgáfufélags Austurlands og blaðið er tileinkað fólki er erlendum uppruna á Austurlandi. Það er gefið út á ensku og þannig vonumst við til að ná til flestra lesenda sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Íslenskar útgáfur greinanna birtast á Austurfrétt á næstu dögum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.