Gervigrasið af Fellavelli gefið
Gervigrasið, sem í áraraðir hefur verið á Fellavelli, verður eftir helgi fjarlægt af vellinum. Fólki býðst að fá grasbúta frítt gegn því að sækja þær. Mikill áhugi er þegar á að komast í gervigrasið sem þykir til ýmissa hluta nytsamlegt.„Það hefur á annan tug fólks haft samband við okkur og ekki bara af Fljótsdalshéraði,“ segir Guðmundur Björnsson Hafþórsson, formaður Rekstrarfélags Hattar.
Hann segir fólkið hafa ýmsar hugmyndir um nýtinguna. Sumir ætli að útbúa leiksvæði í garðinum fyrir börnin sem séu búin að sparka upp grasið þar hvort sem er í fótbolta meðan aðrir nýta þær á svalirnar.
Í maí var samið við Íþróttafélagið Hött um að skipta um gervigrasið. Framkvæmdirnar hefjast af alvöru í næstu viku þegar til stendur að skera núverandi gervigras af. Því verður rúllað upp í tveggja metra breiðar og 30 metra langar rúllur sem fólk getur sótt frítt.
„Gummíð verður tekið úr og síðan verður því sem skorið er af vellinum rúllað upp jafn óðum. Okkur finnst betra að gefa grasinu nýtt líf frekar en að farga því. Það sem ekki verður sótt fer í Eiða til að byggja upp golfaðstöðu,“ útskýrir Guðmundur.
Þekkt er að þegar skipt er á gras á leikvöngum erlendra knattspyrnuliða keppast stuðningsmenn þeirra við að kaupa litla búta úr grasinu jafnvel dýrum dómum og gefa þeim heiðurssess við heimilið.
„Við höfum ekki hugsað út í þessa hugmynd en við skoðum hana núna. Það gæti verið góð hugmynd að skera til dæmis út miðjupunktinn. Annars þá ætlar einn að sækja sér renning til minningar um alla vinnuna sem hann hefur lagt í völlinn.“
Mynd: Unnar Erlingsson