Góður árangur á fyrsta skíðamóti vetrarins
Fimm austfirskir keppendur náðu á verðlaunapall á fyrsta mótinu af þremur í bikarkeppni Skíðasambands Íslands í aldursflokki 12-15 ára.Mótið fór fram síðustu helgi janúarmánaðar á skíðasvæði Dalvíkinga, Böggvistaðafjalli. Þangað mættu ellefu krakkar úr skíðafélögunum í Fjarðabyggð og Stafdal sem keppa saman á landsvísu undir merkjum UÍA. Níu keppendur voru í flokki 12-13 ára en tveir í flokki 14-15 ára.
Jakob Kristjánsson varð efstur í svigi í flokki 12 ára drengja. Í stúlknaflokki varð Amalía Zoega í öðru sæti í svigi og Rut Stefánsdóttir í því þriðja. Rut náði einnig þriðja sæti í stórsvigi.
Í flokki 14 ára stúlkna varð Jóhanna Lilja Jónsdóttir í fyrsta sæti í svigi og Rósey Björgvinsdóttir í öðru. Jóhanna varð einnig önnur í stórsvigi en þar varð Rósey fjórða.
Skíðaæfingar eru nú komnar á fullt hjá félögunum tveimur. Opið hefur verið á skíðasvæðinu í Oddsskarði í nokkurn tíma og opnað var í Stafdal í síðustu viku.
Bikarkeppnin samanstendur af þremur mótum hvern vetur þar sem samanlagður árangur keppenda er reiknaður til stiga í lokin. Bæði er keppt milli einstaklinga og milli liða. Næsta mót verður í Bláfjöllum um komandi helgi og síðasta mótið í Hlíðarfjalli í lok mars.
Mynd: Jón Egill Sveinsson