Góður árangur Austfirðinga á unglingameistaramóti á skíðum

Austfirðingar eignuðust þrjá verðlaunahafa á unglingameistaramóti 12-15 ára í alpagreinum sem haldið var í Bláfjöllum fyrir páska.


Keppt var í svigi og stórsvigi á fyrri keppnisdegi og í samhliðasvigi þann seinni. Þá voru veitt verðlaun fyrir alpatvíkeppni en úrslit hennar ráðast af samanlögðum árangri í svigi og stórsvigi.

Andri Gunnar Axelsson frá Skíðafélagi Fjarðabyggðar varð Andri Gunnar Axelsson frá Skíðafélagi Fjarðabyggðar varð unglingameistari í stórsvigi drengja 15 ára, í öðru sæti í svigi og annar í alpatvíkeppni.

Jóhanna Lilja Jónsdóttir frá Skíðafélaginu í Stafdal varð unglingameistari í svigi stúlkna 12 ára og önnur í alpatvíkeppni.

Alexandra Ýr Ingvarsdóttir frá Skíðafélagi Fjarðabyggðar varð í þriðja sæti í svigi stúlkna 14 ára og þriðja í alpatvíkeppni.

Iðkendur frá Skíðafélagi Fjarðabyggðar og Skíðafélaginu í Stafdal keppa sameiginlega undir merkjum UÍA í bikarkeppni Skíðasambands Íslands. Alls voru tíu þátttakendur frá UÍA á mótinu.

Næsta verkefni austfirskra skíðakrakka eru Andrésar Andarleikarnir sem haldnir verða í Hlíðarfjalli við Akureyri á morgun. Þangað heldur stór sveit en leikarnir verða settir á morgun.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar