Hattarmenn tömdu Njarðvíkurljónin - Myndir

Þó það séu ekki komnir páskar var það samt upprisa sem var á dagskránni þegar Höttur tók á móti Njarðvík í úrvalsdeild karla í körfuknattleik á Egilsstöðum í gær. Fyrir leikinn lágu Hattarmenn marflatir á botni deildarinnar eftir að hafa tapað öllum 11 leikjum sínum á tímabilinu á meðan að gestirnir frá Njarðvík sátu í 5. sæti með 14 stig.


Nokkrar breytingar hafa orðið hjá Njarðvíkingum yfir jól og áramót. Þannig lék Oddur Rúnar Kristjánsson sinn fyrsta leik eftir að hafa gengið til liðs við félagið frá ÍR. Bandaríkjamaðurinn Michael Craig var hins vegar ekki með í för, en Njarðvíkingar fengu hann til liðs við sig í jólaleyfinu, og léku þeir því án erlends leikmanns.

Það voru þó engir aukvisar sem Friðrik Ingi Rúnarsson og Teitur Örlygsson tefldu fram, með landsliðsmennina Hauk Helga Pálsson og Loga Gunnarsson fremsta í flokki.

Fyrirliðinn leiðir liðið

Heimamenn hófu leikinn af miklum krafti og ætluðu sér greinilega að endurgjalda fjölmörgum áhorfendum að hafa mætt á pallana. Hreinn Gunnar Birgisson byrjaði á því að skora fyrstu 5 stig leiksins og Höttur komst í 8-0, áður en Njarðvíkingar ákváðu að byrja leikinn líka. Þeir náðu að jafna leikinn í 8-8 og eftir það var nokkuð jafnræði með liðunum og entist það út allan leikinn, þótt að heimamenn hefðu reyndar oftast frumkvæðið.

Það var ljóst að Njarðvíkingar lögðu allt kapp á að stöðva Tobin Carberry og spiluðu grimma hjálparvörn hvenær sem hann var með boltann. Hann náði hins vegar oftar en ekki að koma sér á vítalínuna eða finna skot og skoraði 14 stig í 1. fjórðungi en Höttur leiddi 27-21 eftir hann.

Þá sendu Njarðvíkingar Loga Gunnarsson til leiks, en hann hafði setið á bekknum allan 1. fjórðung, að sögn vegna smávægilegra meiðsla. Það varð ekki séð að meiðslin háðu honum mikið því hann endaði sem stigahæsti leikmaður gestanna með 17 stig á rúmum 25 mínútum. Með innkomu hans og með því að spila árangursríka pressuvörn undir lok leikhlutans, náði Njarðvík að sækja á og hafði forystu í hálfleik, 42-43.

Trúin kviknar

Í þriðja leikhluta hélt barningur liðanna áfram. Höttur náði frumkvæði og leiddi leikinn nánast allan seinni hálfleikinn en náðu aldrei að hrista Njarðvíkinga alveg af sér. Þeim tókst þó að halda þeim í 11 stigum í 3. leikhluta og staðan að honum loknum var 66-54 Hattarmönnum í vil.

Á þessum tímapunkti voru áhorfendur farnir að taka við sér, og trúin á að heimamenn gætu landað sínum fyrsta sigri var farin að gera vart við sig. En þrátt fyrir góða byrjun á 4. leikhluta, þar sem Tobin Carberry stal boltanum meðal annars tvisvar í röð og skoraði, gerði gamalkunnug taugaveiklun vart við sig hjá Hetti. Liðið tapaði boltanum illa einar fimm sóknir í röð og mikilvægar körfur frá Loga Gunnarssyni gerðu að verkum að munurinn varð aðeins 2 stig, 70-68.

En Njarðvíkingar komust ekki lengra. Tobin Carberry tók völdin í lokin og stýrði leik Hattarmanna eins og herforingi. Hann náði að halda boltanum vel, spila langar sóknir og komast á línuna eða skora sjálfur trekk í trekk. Aðrir leikmenn Hattar stóðust einnig prófið í þetta sinn þegar á reyndi og eftir mikinn darraðardans á lokasekúndunum var niðurstaðan sanngjarn sigur Hattarmanna, 86-79.

Kúl á stórum augnablikum

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar var að vonum ánægður í leikslok. „Við fengum framlag frá mörgum leikmönnum. Flott liðsframlag í vörn og sókn og ég var ánægður með hvað við vorum bara svolítið kúl á því á stórum augnablikum. Sigmar Hákonarson setur til dæmis niður risastóran þrist í fjórðan leikhluta og það er bara margt sem telur svona.“

Hattarmenn stóðu sig einnig gríðarlega vel í fráköstunum í leiknum og ef mark er takandi á tölfræði hans þá tóku Njarðvíkingar ekki eitt sóknarfrákast í leiknum. „Mirko átti náttúrulega bara teiginn. Frábær frammistaða hjá honum,“ sagði Viðar og var sáttur við sína menn, en Mirko var með 17 fráköst í leiknum.

Viðar hefur ekki alltaf verið mjúkmáll í garð sinna leikmanna á tímabilinu og hefur jafnvel legið undir ámæli fyrir. „Það er fullt af misvitru fólki þarna úti, hvort sem það situr á bak við lyklaborð eða er að tjá sig úti í bæ. En við erum bara hér á gólfinu daglega, stundum tvisvar á dag, að vinna í að bæta okkar leik. Við reynum bara að láta verkin tala. Við erum að spila á stærra sviði en áður og það hefur tekið okkur tíma að læra á það og læra að klára þessa leiki. Við gerðum það vel í dag.“

Sigurinn skiptir fólkið í bænum máli

Friðrik Ingi Rúnarsson vildi umfram allt annað óska Hattarmönnum til hamingju með langþráðan sigur. „Þeir áttu þetta bara skilið í kvöld, engin spurning. Vildu þetta meira og náðu að veðra það af sér þegar við vorum að sækja á þá og hefðum getað snúið þessu okkur í hag. Við vorum bara ekki að spila nógu vel í dag. Vorum of linir, það vantaði meiri áræðni og þetta var ekki í takt við það sem við höfum verið að gera síðustu vikur.“

Maður leiksins var tvímælalaust Tobin Carberry, en hann skoraði 40 stig, tók 6 fráköst, átti 6 stoðsendingar og stal boltanum 6 sinnum. Hann brosti enda breitt í leikslok.

„Þessi sigur er mér mikils virði, en ég held að hann sé bænum og fólkinu hérna jafnvel meira virði. Þau hafa staðið með okkur og við náðum að verðlauna þau með flottum tilþrifum í dag. Ég hef horft mikið á leikina frá fyrri hluta tímabilsins og það hefur vantað hjá okkur að vera nógu öruggir í lokin. Ég vildi einbeita mér að því að sýna að við gætum gert það. Fyrri leikurinn okkar gegn Njarðvík var sár reynsla og við vildum bæta úr því í dag. Allt liðið lagði sitt af mörkum og við stóðum okkur vel.“

Myndir: Atli Berg Kárason

Karfa Hottur Njardvik Jan15 0053 Web
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0060 Web
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0076 Web
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0103 Web
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0127 Web
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0137 Web
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0153 Web
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0159 Web
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0194 Werb
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0198 Web
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0217
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0219 Web
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0237 Web
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0245 Web
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0256 Web
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0261 Web
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0289 Web
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0302 Web
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0338 Web
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0341 Web
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0362 Web
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0372 Web
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0457 Web
Karfa Hottur Njardvik Jan15 0518 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar