Helena Kristín heim til Þróttar

Kvennaliði Þróttar í blaki hefur borist öflugur liðsstyrkur því Helena Kristín Gunnarsdóttir hefur ákveðið að spila með liðinu á ný eftir fimm ára fjarveru.

Helena Kristín lék síðast með liðinu veturinn 2011-2012 en flutti það ár til Bandaríkjanna en hún fékk styrk til að spila blak og stunda háskólanám þar.

Helena útskrifaðist í fyrra og tók svo við stöðu aðstoðarþjálfara hjá Louisiana Tech University. Í samtali við Austurfrétt segir hún að landvistarleyfi hennar hafi runnið út um áramótin og hún því talið tímabært að koma heim til Neskaupstaðar í einhvern tíma.

Hún mun spila með Þrótti út leiktíðina en stefnir á meistaranám í haust. Hvar er enn óákveðið.

Helena Kristín er í dag 25 ára gömul en var 15 ára þegar hún kom fyrst inn í meistaraflokk Þróttar. Hún varð Íslands og bikarmeistari með liðinu árið 2011 og fékk eftir það tímabil fjölda viðurkenninga, var meðal annars valin íþróttamaður UÍA.

Þróttur er í efsta sæti deildarinnar og á framundan erfiða leiki gegn HK og Aftureldingu á föstudag og laugardag.

Með liðinu spilar yngri systir Helenu, Heiða Elísabet. „Mér líst vel á að fá að spila með henni,“ segir Helena að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.