Helga Jóna valin íþróttamaður Hattar
Helga Jóna Svansdóttir, frjálsíþróttakona, er íþróttamaður Hattar árið 2016. Hún náði verðlaunum í öllum greinunum sem hún keppti í á Meistaramóti Íslands 15-22 ára síðasta sumar.
Íþróttafólk Hattar var verðlaunað á þrettándagleði félagsins sem haldin var á föstudag.
Í umsögn um Helgu Jónu segir að hún sé flott fyrirmynd fyrir aðra iðkendur, mæti vel á æfingar, komu vel fram, sé einbeitt og jákvæð en hún hefur einnig þjálfað yngri iðkendur.
Helga Jóna varð Íslandsmeistari í þrístökki bæði inni og úti í sínum aldursflokki í fyrra. Hún varð í öðru sæti í öllum þremur greinum sem hún keppti í á Unglingalandsmótinu í ár og í verðlaunasæti í öllum fjórum greinunum sem hún keppti í á Meistaramóti Íslands 15-22 ára í sumar.
Þá voru starfsmerki Hattar afhent í fimmta sinn en þau hljóta einstaklingar sem lengi hafa unnið óeigingjarnt starf fyrir félagið. Starfsmerkin að þessu sinni hlutu þau Hilmar Gunnlaugsson og Ágústa Björnsdóttir.
Hilmar hefur starfað innan knattspyrnudeildarinnar og var á sínum tíma fyrstur manna til að spila yfir 100 leiki fyrir það en þeir urðu alls 154 og mörkin 43, sem telst gott fyrir „framsækinn varnarmann.“
Hilmar hefur gegnt mörgum trúnaðarstörfum fyrir deildina meðal annars formaður, framkvæmdastjóri og haldið utan um fjölmörg önnur verkefni. Hilmar var greinarstjóri knattspyrnu á Unglingalandsmóti UMFÍ á Egilsstöðum 2011 og situr í íþróttadómstól ÍSÍ.
Ágústa hefur setið í yngri flokkaráði knattspyrnudeildar og verið virk í foreldrastarfi ýmissa deilda. Hún komið að skipulagi marga viðburða og keppnisferða innan Hattar í gegnum tíðina. Einnig sat hún í stjórn íþróttaskólans sem stofnaður var á sínum tíma sem hélt utan um starf barna frá 6 til 10 ára aldri.
Ágústa hefur einnig tekið virkan þátt í landsmótum sem haldin hafa verið á Egilsstöðum en hún var fulltrúi sveitarfélagsins á landsmótinu 2001 og á Unglingalandsmótinu 2011 stýrði hún verðlaunaafhendingum. Ágústa hlaut starfsmerki UÍA árið 2012.
Íþróttamenn hjá einstökum deildum Hattar:
Blak : Anna Katrín Svavarsdóttir
Fimleikar: Salka Sif Hjarðar
Frjálsíþróttir: Helga Jóna Svansdóttir
Knattspyrna: Brynjar Árnason
Körfubolti: Hreinn Gunnar Birgisson