Helgaruppgjör: Fyrsti sigur Einherja í sex vikur

Uppskera knattspyrnuliða á Austurlandi var misjöfn eftir helgina. Í 3. deild karla unnu Einherji og Höttur/Huginn sína leiki en báðir voru þeir gegn KFS frá Vestmannaeyjum

KFS lék gegn Einherja á Vopnafirði á laugardaginn og lauk leiknum með 2-1 sigri Einherja þar sem Björn Andri Ingólfsson og Ismael skoruðu mörk Einherja en Eyþór Daði Kjartansson fyrir KFS. Einherji vann þar með sinn fyrsta sigur í 3. deildinni frá 9. júní. Sigurinn var afar mikilvægur fyrir liðið sem er nú með tíu stig á botni deildarinnar en aðeins einu stigi frá öruggu sæti. Því stefnir allt í spennandi botnbaráttu í 3. deild.


Um sólarhring eftir leikinn á Vopnafirði lék KFS gegn Hetti/Hugin á Egilsstöðum. Höttur/Huginn vann leikinn auðveldlega 4-1 þar sem Kristófer Einarsson, Pablo Carrascosa, Valdimar Brimir Hilmarsson og Kristján Jakob Ásgrímsson skoruðu mörk Hattar/Hugins og Frans Sigurðsson mark KFS. Ekkert virðist ætla að stöðva Hött/Huginn í því að komast upp um deild en liðið er með góða forystu í efsta sæti deildarinnar.

Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir F. nældi sér í þrjú mikilvæg stig í 2. deild kvenna með sigri á Knattspyrnufélaginu Hlíðarenda 0-3. Mörk Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis F. skorðuðu Halldóra Birta Sigfúsdóttir, Ársól Eva Birgisdóttir og Alexandra Taberner Tomas. Eins og staðan er núna í deildinni þarf liðið aðeins tvö stig til viðbótar í næstu tveimur leikjum sem eftir eru til að gulltryggja sig í úrslitakeppnina sem fram fer um laus sæti í 1. deildinni að ári.

Fjarðabyggð tapaði 4-0 annan leikinn í röð í 2. deild karla og nú gegn Völsungi. Staða Fjarðabyggðar er verulega slæm en liðið situr í neðsta sæti deildarinnar með fimm stig og hefur enn ekki unnið leik eftir þrettán leiki. Átta stig eru upp í öruggt sæti í deildinni og er útlitið býsna dökkt fyrir liðið.

Leiknir F. gerði markalaust jafntefli við ÍR í 2. deild og lagaði stöðu sína í deildinni ögn með því. Liðið er í tíunda sæti, sæti fyrir ofan fallsæti, með þrettán stig og sjö stig eru niður í fallsæti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar