Hélt uppi heiðri ættarinnar með sigri í Dyrfjallahlaupi

Einn besti hlaupari landsins sigraði Dyrfjallahlaup sem haldið var í fyrsta sinn síðasta laugardag. Hann fylgdi þar með eftir afrekum forfeðra sinna sem voru þekkt hraustmenni á Borgarfirði.

„Sérstaða þessa hlaups er klikkuð náttúran, ég lenti tvisvar eða þrisvar í því að vera búinn að horfa niður fyrir mig til að fóta mig og svo lítur maður upp og sér þessi rosalegu fjöll sem er alveg magnað.“

Þetta segir hlauparinn Arnar Pétursson sem kom fyrstur í mark í Dyrfjallahlaupinu á tímanum 2:08;26 klukkustundum, sextán mínútum á undan næsta hlaupara.

Arnar, sem undanfarin ár hefur verið meðal bestu langhlaupara landsins, á ekki langt að sækja hlaupahæfileikana og þeir koma frá Borgarfirði.

„Foreldrar mömmu minnar, Sigrúnar Jónsdóttur, eru þaðan. Afi Jón kemur frá Snotrunesi og svo er það Amma Jóna sem kemur frá Merki. Bæði Afi og Skúli bróðir hans voru miklir afreksmenn í hlaupum og vann til að mynda Skúli frændi landsmótið 1952 í viðavangshlaupi.

Afi Jón átti síðan eina fræga setningu þegar hann hitti mann sem hafði keppt oft við hann í hlaupum . Þegar hann spurði afa hvort hann kannaðist ekki við sig úr hlaupunum svaraði afi: „ég leit nú aldrei til baka“.

Þetta eru miklar fyrirmyndir fyrir mig í dag og þess vegna var rosalega gaman að geta unnið Dyrfjallahlaupið og haldið upp heiðri ættarinnar.“

Arnar fetaði í fótspor forfeðranna daginn fyrir hlaupið með að hlaupa upp á Eiturtind frá Snotrunesi. Arnar segist hafa hlaupið á 26,28 mínútum en hann var að reyna að slá met Jóns og Skúla. „Ég held ég hafi rétt misst af tímanum hans Skúla en náði að slá tímann hjá afa.“

Mjög vel uppsett hlaupaleið

Dyrfjallahlaupið er 23 km langt með 1100 metra hækkun en Arnar segist hafa litið á það sem 19 km þar sem síðustu fjórir kílómetrarnir væru niður í móti og þá spurningin um að koma sér í mark.

Hann segir hlaupaplanið hafa gengið ágætlega upp en hann hafi verið lengur á milli annarrar og þriðju drykkjarstöðvar en hann reiknaði með því leiðin hafi verið torfarin og erfitt að hlaupa hana. Hann hafi hins vegar bætt upp fyrir það með góðum spretti síðasta kílómetrann.

Hann var hrifinn af leiðinni. „Hlaupaleiðin var alveg stórkostleg, ég gæti ekki hafa sett hana betur upp sjálfur. Það var mjög gott að byrja á töluverðri hækkun í kafla sem hægt er að hlaupa upp en fyrstu 6-7km eru á góðum vegi. Svo var líka meðvindur upp erfiðustu kaflana sem hjálpaði mikið til og gerði þetta enn skemmtilegra.

Seinni hluti leiðarinnar er síðan mjög tæknilega krefjandi þar sem erfitt er að fara hratt niður og á köflum þarf maður að tipla á steinum eins og í stórurðinni. Það er síðan algjör snilld að enda á því að hlaupa niður mjúka brekkuna og taka svo hraðann kafla á malbikinu fyrir markið.“

Hlaupahelgin var ekki búin því á sunnudag varð Arnar Íslandsmeistari í 10 km hlaupi í Reykjavík á tímanum 32,25 mínútur. Hann hélt síðan strax til Frakklands í æfingabúðir.

Arnar á leið í mark í Dyrfjallahlaupinu. Mynd: Andri Geir Elvarsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.