„Hér er komið fram við okkur eins og drottningar“
Spánverjarnir Alexandra Taberner og Marta Saez, sem í sumar spila með Fjarðabyggð/Hetti/Leikni í annarri deild kvenna í knattspyrnu, láta vel af vistinni hjá félaginu.Rætt er við þær í dagblaðinu Segre, sem gefið er út í heimaborg þeirra Lleida í Katalóníu.
Þær segja frá högum sínum, að þær sinni garðyrkjustörfum fyrir sveitarfélagið fimm tíma á dag og æfi 3-4 sinnum í viku einn og hálfan tíma í senn. Þær telja upp hlunnindi eins og íbúð, bíl og bensínpeninga auk þess sem þær fái greitt fyrir að spila fótbolta.
Fyrirsögn viðtalsins er „Á Íslandi kunna þau að meta okkur“ og vísar til þess að þeim þykir vel haldið utan um kvennaíþróttir hérlendis. „Á Íslandi eru konur á sama stalli í íþróttum og karlar. Það er litið á okkur sem fagmanneskjur, sem er frábær tilfinning. Hér er komið fram við okkur eins og drottningar, við gerum okkur sennilega ekki enn grein fyrir öllu sem við njótum hér,“ er haft eftir þeim.
Þær ræða einnig aðra hluti lífsins eins og að Íslendingar séu búnir að slaka á grímuskyldunni, þeim þyki erfitt að vera fjarri fjölskyldu og vinum auk þess sem veðrið reyni á þær eins og marga aðra útlendinga á Íslandi. „Á nokkrum mínútum getur snjóað, rignt, gustað eða sólin skinið. Við höfum ekki enn farið í gegnum heilan dag án þess að vera í úlpum!“
Alexandra hefur farið mikinn í liðinu og skorað 6 mörk í fjórum leikjum en hún leikur sem framherji. Marta spilar í vörninni en hefur samt skorað eitt mark. Liðið er í efsta sæti deildarinnar með fullt hús stiga eftir fjóra leiki og mætir Völsungi í toppslag á föstudagskvöld.