„Hér mælum við ekki með neinu kjaftæði“

Mikið CrossFit-æði geisar á Egilsstöðum og aðsóknin í CrossFit Austur&Heilsuefling Heilsurækt hefur farið fram úr björtustu vonum.


Þær Sonja Ólafsdóttir og Fjóla Hrafkelsdóttir eru eigendur fyrirtækisins, en þar er boðið upp á CrossFit, þrektíma, Yoga og Zumba. Sonja segir að CrossFit kerfið henti öllum.

„CrossFit snýst um heilbrigði og aukin lífsgæði. Fókusinn hjá okkur er að öllum líði vel að fólk upplifi sig velkomið og að það sé hluti af hópnum.

Það besta sem nokkur maður getur gert fyrir sjálfan sig er að koma í CrossFit. Allir eru velkomnir að vera með og það besta er að allir geta verið með óháð líkamlegri færni eða aldri.

CrossFit er ekki bara að springa út hérna á Austurlandi, það er að springa út í öllum heiminum og það er góð ástæða fyrir því – kerfið frábært og félagsskapurinn skemmtilegur, þar hittum við fullt af skemmtilegu fólki, jafnvel gamla vini sem maður hefur ekki hitt lengi því allir eru orðnir of uppteknir.

CrossFit kerfið er hannað þannig að það er hægt að aðlaga það að getu hvers og eins – ég, mamma og amma getum farið saman og tekið sömu æfinguna, en þær eru aðlagaðar að getu hvers og eins,“ segir Sonja.


Mælast til að allir byrji á grunnnámskeiði

„Við mælumst til þess að þeir sem stunda CrossFit hjá okkur byrji á því að sækja grunnnámskeið sem við höldum að meðaltali einu sinni í hverjum mánuði, misjafnt hvort það er helgarnámskeið eða þriggja vikna námskeið. Að því loknu eru allir færir um að koma í WOD tíma hjá okkur sem og öðrum CrossFit stöðvum á landinu (WOD stendur fyrir Workout Of the Day eða æfing dagsins).

WOD tímunum er stýrt af CrossFit þjálfurum og eru alla virka daga klukkan 06:00, 12:05 og 17:30. Vegna mikillar aðstóknar bætist við nýr tími frá og með næsta mánudegi, klukkan 20:00 alla mánudaga, þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga. Við munum halda áfram að bæta við tímum eins og nauðsyn krefur.“


Stöðin er fyrir alla Austfirðinga

Sonja segist oft vera spurð út í nafnið á stöðinni, af hverju hún heiti CrossFit Austur, en ekki CrossFit EGS eða CrossFit 700. Svarið er einfalt;

„Við vildum að allir Austfirðingar gætu tengt við nafnið og liðið eins og þeir væru velkomnir, að þetta væri stöðin þeirra rétt eins og þeirra sem búa hérna á Egilsstöðum

Þetta er fyrsta og eina CrossFit stöðin á Austurlandi og við viljum virkja sem flesta og gera Austurland að heilbrigðasta stað á Íslandi.

Við bjóðum upp á klippikort sem er góður kostur fyrir fjarðarbúa sem vilja æfa hjá okkur, auk þess sem er frír prufutími fyrir alla.“


Mælir ekki með fitness

Sonja hefur unnið sem einkaþjálfari síðan árið 2011. Árinu áður stefndi hún á að keppa í fitness og segir það tímabil lífsins það óheilbrigðasta sem hún hefur upplifað.

„Þetta er það versta sem ég hef látið líkamann minn ganga í gegn um og mæli ekki með því við nokkurn mann að fara í undirbúning fyrir fitness. Ég vildi vera heilbrigð, hraust og líða vel í eigin skinni. Ég áttaði mig fljótlega á að það gerðist ekki í þessu umhverfi, þetta var ekki það sem ég vildi gera sjálfri mér, hvorki andlega né líkamlega.

Hugsunarhátturinn í kringum fitness er brenglaður, ég fékk óheilbrigðar ráðlegginar sem endaði með að ég þróaði með mér til skjaldkirtilsvandamál meðal annars vegna inntöku fitubrennsluefna, sem tók mig eitt og hálft ár við að ná mér út úr.

Í fitness er ekki verið að spá í heilbrigði, aðeins leiðum til þess að grennast sem mest og hraðast og að sjálfsögðu á sama tíma að halda í vöðvamassa til að uppfylla einhverja útlitsstaðla, þennan eina dag sem keppnin er haldin.

Ég fann loksins það sem ég hafði ómeðvitað verið að leita af þegar ég ráfaði óvænt inn á CrossFit námskeið.

Hér mælum við ekki með neinu kjaftæði, heldur skynsömum leiðum að vellíðan. Þú getur eflaust grennst á Herbalife kúr, en ertu að gera þig heilbrigðari með því? Elskum okkur, sama hvernig við erum, berum virðingu fyrir líkamanum okkar og hugsum vel um hann, hreyfum okkur rétt og borðum rétt. Lykilinn er alltaf að borða hreinan og hollan mat ekki duft.“


Heldur áfram allt til enda

Sonja segist hafa orðið alveg heltekin af áhuga á CrossFit frá fyrstu stundu.

„Ég fór á þjálfaranámskeið hjá CrossFit Inc. og nokkrum mánuðum seinna tók ég næsta stig. Ég mun halda áfram að læra og bæta við mig þekkingu á þessu sviði þar til ég verð stoppuð af einhverjum æðri mætti.”

Stundatöfluna í heild sinni má sjá á heimasíðunni, en einnig er hægt að fara í fjölbreytta þrektíma, Yoga og Zumba.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.