Hjalli hættir hjá Gautaborg
Knattspyrnumaðurinn Hjálmar Jónsson frá Egilsstöðum hefur tilkynnt að yfirstandandi tímabil hjá IFK Gautaborg í Svíþjóð verði hans síðasta. Hann hefur leikið 427 leiki fyrir Gautaborgarliðið á 15 leiktímabilum og ekki leikið fyrir annað félagslið á erlendri grundu.
Hjálmar lék með Hetti upp í gegnum alla yngri flokki og með meistaraflokki félagsins, áður en hann gekk síðan til liðs við Keflavík. Hann lék með suðurnesjaliðinu í tvö sumur í efstu deild hérlendis áður en hann samdi við IFK snemma árs 2002 og hefur sem fyrr segir leikið með þeim síðan.
Hjálmar á einnig að baki 21 A-landsleik fyrir Íslands hönd, þann fyrsta árið 2002 en síðast lék hann með liðinu gegn Rússum ytra árið 2013, og einnig 3 leiki með U21 landsliðinu.
Hjálmar hefur í gegnum tíðina verið í miklum metum í Gautaborg og á framangreindri frétt er honum gefin sú einkunn að þar fari „hetja, trúr liðsmaður og snjall varnarmaður.“
Í viðtali segir Hjálmar ekkert annað ráðið en að hann muni ekki leika áfram með IFK að loknu þessu tímabili. Myndbandið má sjá hér að neðan.