Hjálmar kvaddur sem hetja í Gautaborg: Nú þarf maður að finna sér eitthvað annað að sýsla

Knattspyrnumaðurinn Hjálmar Jónsson frá Egilsstöðum lék í gærkvöldi sinn síðasta heimaleik fyrir IFK Gautaborga í sænsku úrvalsdeildinni en hann hefur verið hjá liðinu í 15 ár. Stuðningsmenn Gautaborgar hylltu Hjálmar sem hetju í leikslok.


„Það var augljóst að Hjalli kom inn á völlinn. Það var klárt að hann að hann náði í vítið sem jafnað var úr. Það er klárt að Hjalli er hetja“

Á þessum orðum hefst umfjöllun heimasíðu Gautaborgar um leikinn gegn Elfsborg á Gamla Ullevi. Hjálmar kom inn á 28. mínútu eftir að annar varnarmaður meiddist. Á 70. mínútu skallaði hann boltann í hönd varnarmanns þannig að dæmd var vítaspyrna sem Gautaborg jafnaði í 1-1.

Leiknum lauk síðan 2-2 og með því tryggði Gautaborg sér fjórða sæti deildarinnar. Það gæti veitt Evrópusæti á næstu leiktíð, eftir því hvernig úrslitaleikur sænsku bikarkeppninnar fer.

Í samtali við heimasíðu Gautaborgar og sjónvarpsstöðina TV4 sagðist Hjálmar ánægður með að hafa fengið að vera með í leiknum og þakklátur fyrir dýrmætt stig.

Hann átti fá orð þegar hann var spurður um hvernig honum liði á sama tíma og stuðningsmenn Gautaborgar kölluðu nafn hans. „Maður verður auðvitað glaður en það er samt erfitt að lýsa hvernig manni líður. Það er bara svoleiðis. Bara að sjá allt þetta fólk hér í stúkunni. 15 ár. Ég veit eiginlega ekki hvað ég get sagt.“

Hjálmar er alinn upp hjá Hetti en gekk til liðs við Keflavík fyrir sumarið 1999. Þar spilaði hann þrjú ár í efstu deild áður en Gautaborg bauð honum samning 2002 þar sem hann hefur verið síðan. Hann varð sænskur meistari með liðinu 2007 og bikarmeistari 2008, 2013 og 2015. Þá lék Hjálmar 15 leiki með íslenska landsliðinu.

Einn leikur er eftir hjá Gautaborg í deildinni. Hjálmar hefur til þessa ekki viljað gefa upp hvað taki við eftir leikmannsferilinn hjá liðnu og játaði hvorki né neitaði þegar hann var spurður hvort hann ætlaði að fara að þjálfa hjá unglingaliðinu.

Hann játaði hins vegar að honum leiddist að hætta. „Já, en nú verður maður að finna sér eitthvað annað að sýsla.“

- Ertu búinn að velja þér sæti í stúkunni?
„Já, ég get alveg hugsað mér að vera einhvers staðar þarna uppi.“

Önnur kempa úr Gautaborgarliðnu, Adam Johanson, lagði skóna á hilluna um leið og Hjálmar. Þjálfarinn Jörgen Lennartsson hrósaði þeim í leikslok.

„Hjalli þurfti að spila aðeins meira en við ætluðum. En hann stóð sig vel og sýndi að hann þarf ekkert að hætta. Það skipti okkur máli að Hjálmar og Adam fengu að koma inn á til að geta sýnt ást, hlýju og virðingu í þeirra garð. Það verðskulda þeir fyrir framlag sitt á vellinum fyrir IFK Gautaborg en kannski fyrst og fremst fyrir það viðhorf sem þeir hafa sýnt utan vallar, tryggð sem ekki er algeng í dag.“

Og lokaorð leikskýrslu Gautaborgar voru: „Þetta var kalt en um leið hlýlegt kvöld sem tilheyrði og var tileinkað Hjálmari og Adam.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.