Höttur féll en Afturelding fagnaði deildarmeistaratitli - Myndir

Höttur féll í dag úr annarri deild karla í knattspyrnu eftir 1-3 ósigur gegn Aftureldingu á heimavelli í lokaumferð Íslandsmótsiðs. Höttur var yfir í hálfleik en Mosfellsbæjarliðið var hungrað enda deildarmeistaratitill og sæti í fyrstu deild að ári í húfi.

Mikið var undir hjá báðum liðum. Höttur gat með sigri bjargað sér frá falli og stóð tölfræðilega séð best að vígi í baráttunni við Tindastól og Leikni. Liðið fékk hins vegar erfiðasta mótherjann, Aftureldingu sem var á toppi deildarinnar en samt ekki öruggt með sína stöðu.

Höttur lék vel í fyrri hálfleik og uppskar mark frá Daníel Kjartanssyni um hann miðjan. Hinn sjóðheiti Andri Freyr Jónasson jafnaði fyrir Aftureldingu eftir tíu mínútur í seinni hálfleik og skoraði aftur tuttugu mínútum síðar.

Seinni hálfleikurinn var á valdi gestanna úr Mosfellsbæ. Þeir voru meira með boltann, réðu hraðanum í leiknum og stjórnuðu miðjunni þannig að Höttur komst lítt fram á völlinn. Örlög Hattar voru endanlega ráðin þegar Afturelding skoraði þriðja markið á 86. mínútu á meðan Leiknir og Tindastóll unnu sína leiki.

Aftureldingarmenn fögnuðu því ákaft í leikslok og virtust syngja eitthvað um Völsunga meðan þeir gerðu það. Festir Hattarmanna forðuðu sér til búningsherbergja en nokkrir voru álútir eftir á vellinum. Allir heiðruðu þeir þó Aftureldingu með nærveru sinni þegar bikarinn fór á loft.

Fúlir fram að kvöldmat

„Mér fannst við betra liðið í fyrri hálfleik og eiga séns á að komast í 2 eða jafnvel 3-0. Við töpuðum svo baráttunni í seinni hálfleiknum og þeir tóku miðsvæðið. Staðan var erfið eftir að þeir komust í 1-2 og ómöguleg eftir þriðja markið,“ sagði Jón Karlsson, þjálfari Hattar við Austurfrétt í leikslok.

„Við erum niðurlútir og svekktir. Við fórum í leikinn til að vinna en vorum meðvitaðir að fleiri lið voru í baráttunni og við værum að spila við efsta liðið.

Niðurstaðan er ljós og það er ekki annað að gera núna. Við verðum fúlir til klukkan sex í dag, svo förum við að horfa á næsta tímabil.“

Sveiflur í öðrum leikjum höfðu áhrif á stöðu Hattar. Þannig var liðið í deildinni þegar flautað var til hálfleiks, og jafnvel í stöðunni 1-1 á meðan Tindastóll var ekki að vinna Völsung.

„Við vorum fyrst og fremst að pæla í okkar leik og lögðum alla áherslu á það við þá ellefu leikmenn sem voru inni á vellinum. Auðvitað vorum við þjálfararnir meðvitaðir um hvað væri að gerast annars staðar til að bregðast við ef hægt væri og reyndum það en það gekk ekki í dag.“

Skemmtilegur mánuður þótt markmiðinu væri ekki náð

Mánuður er síðan Jón tók við stjórn liðsins og í leikjunum fjórum sem það lék undir hans stjórn unnust tveir, einn endaði í jafntefli og sá síðasti tapaðist. „Mér var ljúft og skylt að taka við liðinu í þeirri stöðu sem það var. Þetta byrjaði vel, við fengum sjö stig af fyrstu níu.

Þegar maður var búinn að vinna tvo leiki í röð var hundfúlt að það teldi ekki því hin liðin unnu líka. Því var allt undir í dag. Mánuðurinn hefur verið skemmtilegur þótt markmiðið hafi verið að halda sér uppi.“

Samkomulagið við Jón náði aðeins út tímabilið. „Við látum kvöldið og morgundaginn líða áður en við förum að ræða stöðuna. Það eru mætir menn í stjórn, við sofum á þessu og mætum tvíefldir næsta sumar.“

Hefur hann áhuga á að þjálfa liðið í þriðju deildinni? „Það er ótímabært að segja það strax eftir leik, grautfúll.“

Brynjar hættur með Huginn

Huginn féll einnig úr annarri deildinni en liðið tapaði 4-0 fyrir Gróttu sem fer upp með Aftureldingu. Liðið fékk aðeins sex stig en á fimmtudaginn var liðinu dæmdur ósigur í umdeildum leik við Völsung. Liðin mættust upphaflega á Seyðisfirði um miðjan ágúst og vann Huginn þá 2-1. Völsungar kærðu leikinn á þeim forsendum að ekki hefði verið farið rétt að við skil leikskýrslu þar sem rangt rautt spjald á leikmann þeirra var leiðrétt og var úrskurðað að leikurinn skyldi endurtekinn síðasta miðvikudag. Seyðfirðingar voru ósáttir við úrskurðinn sem og ákvörðun Knattspyrnusambandsins um að spila á Fellavelli vegna vallaraðstæðna á Seyðisfirði, þótt sá völlur væri tiltekinn í dómsorði og mættu ekki þangað.

Í samtali við vefmiðilinn Fotbolti.net eftir leikinn við Gróttu í dag staðfesti Brynjar Skúlason að hann væri hættur þjálfun Hugins. Hann hefur gegnt starfinu frá 2009 og undir hans stjórn náði liðið upp í fyrstu deild þar sem það lék sumarið 2016.

Fjarðabyggð lék á útivelli í dag gegn Þrótti Vogum og tapaði 3-1. Liðið var löngu búið að tryggja veru sína í deildinni og eftir það var sem allur vindur væru úr því þar sem síðustu fimm leikirnir töpuðust.

Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0002 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0011 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0015 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0020 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0021 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0028 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0030 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0034 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0035 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0039 Wewb
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0045 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0048 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0052 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0053 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0054 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0056 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0058 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0070 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0073 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0074 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0076 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0081 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0084 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0090 Wreb
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0094 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0097 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0102 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0109 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0120 Web
Fotbolti Hottur Umfa 20180922 0129 Web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar