Höttur og Huginn tefla fram sameiginlegu liði
Höttur rekstrarfélag og knattspyrnudeild Hugins hafa gert með sér samkomulag til þriggja ára um að tefla fram sameiginlegu liði í meistaraflokki karla undir nafninu Höttur/Huginn. Formaður rekstrarfélagsins segir markmiðið að byggja upp lið á heimamönnum.„Þetta byrjaði sem hugmynd í haust. Þegar ljóst var að bæði lið féllu um deild var þetta sett á fullt,“ segir Guðmundur Björnsson Hafþórsson, formaður rekstrarfélags Hattar um aðdraganda samkomulagsins sem undirritað var síðasta föstudagskvöld.
Liðin féllu bæði úr annarri deildinni í sumar og hefðu að óbreyttu mæst í þriðju deildinni næsta tímabil. Forsvarsmenn félaganna vonast að með að sameina krafta sína takist að byggja upp öflugt lið til lengri tíma litið.
Þjálfari verður Viðar Jónsson, sem ráðinn var til Hattar í haust, og með honum Brynjar Árnason sem verið hefur fyrirliði Hattar síðustu tímabil. Samstarfssamningurinn er jafn langur ráðningarsamningi Viðars.
Þorri leikmannahópsins kemur frá Hetti sem er með 20 samningsbundna leikmenn samanborið við sex hjá Huginn. Liðin voru samanlagt með níu erlenda leikmenn síðasta sumar. Höttur er með tvo slíka á samningi og segir Guðmundur að stefnt sé að því að fá tvo í viðbót til að styrkja liðið. Þeir erlendu leikmenn sem spilað hafa með Huginn hafa ekki enn framlengt samninga sína. Því er gert ráð fyrir að byggja liðið upp til framtíðar heimamönnum.
Vandræði með knattspyrnuvöllinn á Seyðisfirði hafa verið ágætlega tíunduð en vart er hægt að segja að hann hafi verið leikhæfur síðustu þrjú sumur. Liðið mun æfa og spila á Egilsstöðum og í Fellabæ frá á sumarið 2020 en gert er ráð fyrir að leikjum verði skipt jafnt milli Vilhjálmsvallar og Seyðisfjarðarvallar þegar hann verður kominn í leikhæft ástand.
Ýmislegt hefur hins vegar áhrif á hvað gerist í framtíðinni en forsvarsmenn knattspyrnufélaganna horfa til sameiningarviðræðna sveitarfélaga á Austurlandi, sem bæði Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstaður taka þátt í. Niðurstöður úr viðræðunum eiga að liggja fyrir eigi síðar en í árslok 2019.
Þá er eftir að ganga frá nokkrum smáatriðum svo sem útliti nýrra keppnisbúninga liðsins.
Liðin hafa áður haft með sér samstarf undir merkjum Hugins/Hattar árin 2001 og 2002. Liðið endaði í þriðja sæti D riðils þáverandi þriðju deildar bæði árin.
Stjórnar Knattspyrnusambands Íslands bíður svo það verk að ákveða hvort Ægir eða Álftanes taka sætið sem losnar í þriðju deildinni við sameininguna.