Höttur skellti toppliðinu: Gátum loks stillt upp sterkasta liðinu

Höttur vann annan sigur sinn í sumar þegar liðið varð hið fyrsta til að vinna topplið Njarðvíkur í annarri deild karla 0-3 í gær. Þjálfarinn vonast til að ólukkan sem elt hafi liðið í sumar sé nú á förum.


„Við höfum við að glíma við sömu vandamál og önnur landsbyggðarlið sem er að margir leikmenn búa í Reykjavík og æfa ýmist einir eða með öðrum liðum.

Ég tók við liðinu í febrúar og var með nokkra leikmenn á Egilsstöðum en af þessum sökum varð undirbúningurinn ekki eins og ég hefði viljað. Ég fékk leikmennina alla 15. maí en þá tóku við meiðsli.

Við höfum ekki getað stillt upp okkar sterkasta liði frá því tímabilið hófst og svo höfum við verið óheppnir í síðustu leikjum. Um helgina höfðum við hins vegar okkar sterkast lið, fyrir utan einn leikmann, og það hlaut að koma að því að óheppninni linnti,“ segir Nenad Zivanovic, þjálfari Hattar.

Tök á leiknum

Liðið sótti þrjú stig suður með sjó til Njarðvíkur en heimaliiðið var ósigrað á toppi deildarinnar fyrir leikinn. Brynjar Árnason og Petar Mudresa skoruðu fyrir Hött í fyrri hálfleik og Steinar Aron Magnússon bætti við þriðja markinu tíu mínútum fyrir leikslok.

„Við vorum betri en Njarðvík og ég átti eiginlega von á meiru frá þeim. Vindurinn snérist svo við þurftum að verjast í seinni hálfleik en náðum að skora eftir skyndisókn.“

Nenad segist ekki hafa stillt liðinu sérstaklega upp til að mæta Njarðvík. „Ég spila alltaf sömu leikaðferð. Ef þú breytir leikstílnum eftir mótherjanum þá hefurðu bara sjö daga til undirbúnings. Ef þú hefur þinn eigin leikstíl þá vita leikmennirnir að hverju þeir ganga.“

Ætlar upp um deild

Aðspurður segist Nenad, sem er sóknarmaður, vilja spila sóknarsinnaðan leik. „Markmiðið mitt er að við skorum mörk og eigum margar sendingar. Ég þoli ekki svona leiki þar sem menn sparka boltanum langt og hlaupa svo á eftir honum. Við spilum boltanum út úr vörninni og höfum reynt að færa okkur framar á völlinn og pressa mótherjana á þeirra vallarhelmingi.“

Nenad skrifaði síðasta haust undir þriggja ára samning við Hött. Hann segir það markmið sitt að fara með liðið upp um deild strax í sumar. „Ég sagði það strax við alla og ég gef það markmið ekki upp á bátinn fyrr en það verður orðið tölfræðilega ómögulegt. Ég held við verðum heppnari í næstu leikjum.“

Miðjumaðurinn Ragnar Pétursson lék sinn fyrsta leik með liðinu í sumar. Hann er uppalinn hjá Hetti og spilaði síðast með liðinu þegar það var í fyrstu deild sumarið. Síðan hefur hann haft viðkomu í úrvalsdeildarliðum ÍBV og Þróttar Reykjavíkur. Ragnar spilar með Hetti meðan hann er í sumarfríi frá læknisnámi sem hann stundar í Slóvakíu.

Ondo á ferð með landsliðinu

Huginn vann góðan 4-1 sigur á KV í deildinni á Fellavelli í gær. Aaron Redford skoraði sín fyrstu mörk fyrir Huginn og hafði þau tvö í fyrri hálfleik áður en hann fór út af meiddur. Redford þessi kemur úr unglingastarfi Lundúnaliðsins Fulham. Teo Kardum og Gonzalo Leon bættu við tveimur mörkum fyrir Huginn í seinni hálfleik.

Fjarðabyggð lyfti sér af botninum síðasta miðvikudag þegar liðið vann sinn fyrsta sigur í sumar sem var 1-0 heima gegn Aftureldingu. Zoran Vujovic skoraði sigurmarkið í uppbótartíma.

Leiknum var frestað þar sem Loic M‘Bang Ondo, leikmaður Fjarðabyggðar, var að spila með landsliðið Gabon vikuna á undan. Loic var í fyrsta sinn í byrjunarliði í landsliðinu í markalausu jafntefli í vináttulandsleik gegn Zambíu. Hann var síðan meðal varamanna þegar Gabon tapaði 2-1 fyrir Malí á útivelli í fyrsta leik sínum í forkeppni Afríkukeppninnar 2019.

Áhrifin af fyrsta sigrinum vörðu ekki lengi. Fjarðabyggð steinlá í gær fyrir Völsungi á Húsavík, 5-0. Öll mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik.

Leiknir tapaði 2-0 á Selfossi í fyrstu deild. Bæði mörkin voru skoruð í seinni hálfleik.

Eftir góða byrjun hefur Einherji tapað tveimur leikjum í röð í þriðju deild. Á föstudag tapaði liðið 4-0 á útivelli fyrir Berserkjum sem ekki höfðu unnið leik í sumar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar