Höttur upp um deild: Hefðir verða ekki til á einni nóttu

Höttur tryggði sér sigur í fyrstu deild karla og þar með sæti í úrvalsdeild í þriðja skiptið í sögu félagsins með því að leggja Ármann að velli á föstudagskvöld. Þjálfarinn vonast til að halda þeim leikmönnum sem spilað hafa í vetur áfram.


„Það voru engin áform um hvenær við ætluðum að klára deildina. Við ætluðum bara að safna eins mörgum stigum og við gætum og vinna hana.

Síðan ég tók við hefur okkur ekki vegnað vel í úrslitakeppni þannig það var gott að gera þetta svona,“ segir Viðar Örn Hafsteinsson.

Höttur á enn eftir heimaleik gegn Breiðabliki á föstudag og átti einnig eftir gegn leik gegn Val á sunnudag þegar sætið var tryggt. Leikurinn gegn Val tapaðist stórt.

„Það var erfitt að koma sér í gírinn eftir að sætið var tryggt. Menn töluðu um og ætluðu sér það en það gerðist ekki. Valsmenn voru líka góðir og ætluðu að sýna að þeir gætu unnið.“

Ekki verra lið en í fyrra

Leikurinn gegn Ármanni vannst hins vegar nokkuð þægilega þótt heimamenn hefðu verið yfir eftir fyrsta leikhluta. „Þeir voru peppaðir og svínhittu í fyrsta leikhluta en við vissum að þetta væri leikur sem við ætlum alltaf að vinna. Við þurftum að hafa fyrir að síga fram úr þeim en gerðum það nokkuð sannfærandi.“

Höttur tapaði öllum þremur leikjum sínum gegn Val í vetur en ekki öðrum leikjum í deild. „Við höfum haldið góðri einbeitingu og ekki missigið okkur á miðjum tímabilið. Liðið er vel mannað og umgjörðin fín.

Það hafa verið stöðugar framfarir, bæði hjá leikmönnum, þjálfara og stjórn. Það hafði ekki mikil áhrif á okkur að falla í fyrra og við vorum ekki með síðra lið í vetur. Hefðir verða ekki til á einni nóttu.“

Vonast til að klára leikmannamál sem fyrst

Viðar segir að þegar séu hafnar viðræður um leikmenn fyrir næsta tímabil. Hann vonast til að halda þeim sem spiluðu í vetur og því verði gengið frá sem fyrst. Síðan þurfi að þétta raðirnar en meðal annars er beðið ársþings Körfuknattleikssambandsins þann 20. apríl þar sem ákvörðun verður tekin um leyfilegan hámarksfjölda erlendra leikmanna.

Yngri leikmenn Hattar fengu mínútur um helgina. Viðar segir þá ekki tilbúna að taka við keflinu en þeir geti náð langt með að leggja á sig erfiði.

„Þegar tímabilið klárast verður tími til að æfa sig og bæta sig. Þeir sem hafa áhuga á því geta náð langt en það gerist ekki af sjálfu sér. Við erum ekki með þá efnilegustu á landinu en ef þeir eru til ía ð leggja allt í sölurnar og æfa 12 mánuði á ári þá gætu þeir orðið mjög góðir spilarar.“

En tímabilið er ekki alveg búið. Eftir er leikur gegn Breiðabliki á föstudagskvöld þar sem liðið tekur við bikarnum. Það er í fyrsta skipti sem körfuknattleikslið Hattar fær bikar afhentan á heimavelli.

Bikarleikur í blakinu í kvöld

Lið Þróttar í fyrstu deild kvenna í blaki tapaði á sunnudag fyrir HK á heimavelli 1-3 eða í hrinum 16-25, 11-25, 26-24 og 22-25. Ana Vidal var stigahæst hjá Þrótti með 13 stig en María Rún Karlsdóttir skoraið 11.

Þróttur mun enda deildarkeppnina í þriðja sæti og mætir að líkindum Aftureldingu í undanúrslitum. HK er á toppnum og hefur ekki tapað leik.

Karlalið Þróttar tekur á móti Stjörnunni í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í kvöld. Leikurinn efst klukkan 19:00.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.