„Hreyfivika UMFÍ snýst ekki um keppni“

„Austfirðingar kunna greinilega að meta Hreyfiviku því það er alltaf mikil þátttaka í ykkar röðum og gaman að fylgjast með fjölbreytileikanum. UMFÍ á trausta boðbera fyrir austan sem smita út frá sér orku og án efa í allt samfélagið,“ segir Sabína Steinunn Halldórsdóttir, landsfulltrúi Ungmennafélags Íslands, um hina árlegu Hreyfiviku sem hófst í gær.


Hreyfivika Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) hófst í gær og stendur fram á sunnudag. Er þetta í sjöunda árið í röð sem UMFÍ tekur þátt í þessari evrópsku lýðheilsuherferð undir nafninu Now We Move eða Hreyfiviku UMFÍ. Markmið verkefnisins er að að fá hundrað miljónir fleiri evrópubúa til að hreyfa sig reglulega fyrir árið 2020.

Dæmi um viðburði á Austurlandi eru hjólaæfingar, partýspinning og sjósund á Seyðisfirði. 

„Hreyfivikan skiptir miklu máli, þó svo að vissulega séu allar vikur ársins hreyfivikur, en við viljum líka hvetja fólk til þessa að finna sína uppáhalds hreyfingu. Hreyfivika UMFÍ snýst ekki um keppni eða finna upp á einhverjum viðburðum heldur um að kynna það góða starf sem er víðsvegar um landið. Allsstaðar er fólk að vinna að góðum verkefnum sem hafa það að markmiði að fólk njóti, hafi gaman og hreyfi sig. Síðan kann að vera að það eru nýir íbúar sem þekkja ekki til hvað sé í boði nú eða íbúar sem vita ekki af einhverju spennandi og langar að kynnast nýrri hreyfingu,“ segir Sabína Steinunn.

„Það geta allir tekið þátt á sínum forsendum“
Sabína Steinunn segir að Hreyfivika UMFÍ sé fyrir alla. „Það geta allir tekið þátt á sínum forsendum hvort sem um er að ræða félög, skóla, sveitarfélög, fyrirtæki eða einstaklinga. Svokallaðir boðberar hreyfingar eru þeir sem hrífa aðra með sér og standa fyrir viðburðum sem eru opnir öllum. Oftar en ekki eru þetta einstaklingar sem eru áberandi í sínu samfélagi þegar kemur að heilsueflingu og hreyfingu, en það geta allir tekið þátt á einn eða annan máta. Enda bera viðburðirnir á Austurlandi þess merki að það rúmast allt í hreyfiviku UMFÍ svo lengi sem það er heilsueflandi.“

Hér er slóð dagskrá hreyfivikunnar og þar má slá inn mismunandi landsvæði. Á heimasíðum Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar má einnig finna dagskrá þeirrar bæjarfélaga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar