Hreyfivikan frábært tækifæri til að kynna ýmsar íþróttagreinar
Vel heppnað örnámskeið í strandblaki var haldið í Neskaupstað í gær í tilefni Hreyfiviku UMFÍ og vetrarstarfi yngri flokka í blaki var slúttað á þriðjudag.
„Þetta gekk bara vel, um 20 manns mættu til leiks í blíðskaparveðri og skemmtu sér vel,“ segir Unnur Ása Atladóttir, framkvæmdastjóri Blakdeildar Þróttar.
Það voru spænksu þjálfararnir Borja og Valal sem sáu um námskeiðið sem hugsað var fyrir þá sem fæddir eru eftir 2001. Unnur Ása segir að bæði hafi mætt reyndir innanhúss-blakspilarar sem og einhverjir sem aldrei hafa spilað blak.
„Hreyfivikan er gott tækifæri til að setja upp kynningar á hinum ýmsu íþróttagreinum og vekja athygli á því sem íþróttafélögin eru að gera, þetta var til dæmis gott tækifæri til þess að virkja almenning til þess að koma og prófa.
Strandblakvöllurinn er svo opinn fyrir alla og Sparisjóður Austurlands styrkti okkur nýverið um nýja bolta, þannig að alltaf verða tveir góðir boltar á vellinum.“
Um 100 iðkendur í yngri flokkum
Vetrarstarfi yngri flokkana í blaki lauk formlega á þriðjudaginn, en um 100 iðkendur eru í yngri flokkum blakdeildarinnar.
„Við tókum skyndiákvörðun og ákváðum að nýta góða veðrið til þess að slútta starfinu sem við getum á þriðjudaginn. Við fórum í ratleik, lékum okkur í sandinum, grilluðum pylsur og veittum viðurkenningar eftir skemmtilegan vetur,“ sagði Unnur Ása.
Ljósmynd: Kristín Hávarðsdóttir.