Höttur einn á toppnum eftir sigur á Völsungi

hottur_hamar_02062011_0074_web.jpgLið Hattar er eitt í efsta sæti annarrar deildar karla í knattspyrnu eftir sigur á Völsungi á heimavelli í dag. Fjarðabyggð fylgir í humátt á eftir en talaði illa fyrir Fjallabyggð.

 

Höttur tók á móti Völsungi á Vilhjálmsvelli. Völlurinn var rennandi blautur eftir undanfarinn sólarhring og víða voru veglegir pollar á vellinum sem hægðu jafnvel svo mikið á boltanum að hann stoppaði. Garðar Már Grétarssyni tókst þó að skora sigurmarkið með góðu skoti utan vítateigs eftir tæplega hálftíma leik. Áður hafði Sigurður Donys Sigurðsson mistekist að koma Hetti yfir þegar hann brenndi af vítaspyrnu.

Fjarðabyggð tapaði illa fyrir Fjallabyggð á Ólafsfirði. Heimamenn voru 2-0 yfir í hálfleik og bættu við tveimur mörkum undir lokin eftir að Jóhann Ragnar Benediktsson hafði minnkað muninn á 59. mínútu.

Höttur er efstur í deildinni með 13 stig eftir fimm leiki og er enn eina lið deildarinnar sem ekki hefur tapað leik. Liðið tapaði fyrstu stigum sínum á fimmtudag þegar það gerði 2-2 jafntefli við Dalvík/Reyni á útivelli, eftir að hafa fengið á sig tvö mörk á seinustu fimm mínútunum. Fjarðabyggð er í öðru sæti með 12 stig en hefur leikið einum leik meira. Liðið vann Árborg 2-1 í Fjarðabyggðarhöllinni á fimmtudaginn en leikurinn var færður þangað inn því of hvasst þótti til knattspyrnuiðkunar á Eskifjarðarvelli.

Í 1. deild kvenna tapaði Fjarðabyggð/Leiknir fyrir Keflavík á útivelli 4-1 á föstudagskvöld. Una Jónsdóttir skoraði markið. Höttur tapaði fyrir Sindra 1-3 á fimmtudagskvöld í leik sem var færður af Fellavelli í Fjarðabyggðarhöllina vegna aðstæðna. Kristín Inga Vigfúsdóttir skoraði fyrir Hött. Liðin eru stigalaus á botni A-riðils deildarinnar.

Einherji gerði 4-4 jafntefli við Draupni í þriðju deild karla á laugardag. Staðan í hálfleik var 1-1 eftir að Helgi Már Jónsson hafði jafnað fyrir Vopnfirðinga. Gunnlaugur Bjarnar Baldursson kom þeim yfir á 61. mínútu en heimamenn tóku forustuna með mörkum á 82. mínútu og 85. Aftur jafnaði Helgi Már á 88. mínútu áður en Bjarki Björnsson kom gestunum yfir þegar tvær mínútur voru liðnar af uppbótartíma. Sú sæla varði ekki nema í um mínútu því þá jöfnuðu Draupnismenn með sínu fjórða marki.

Leiknir vann Huginn 2-1 á Fáskrúðsfirði í seinustu viku. Norbert Dobrzycki kom Leikni yfir en Benedikt Jónsson jafnaði fyrir gestina í upphafi seinni hálfleiks. Ingimar Harðarson skoraði síðan sigurmarkið rúmum tuttugu mínútum fyrir leikslok.

Sindri frá Höfn er í efsta sæti riðilsins með fullt hús stiga eftir fjóra leiki og ekki fengið á sig mark en skorað sautján. Leiknir, Einherji og Huginn raða sér í þriðja, fjórða og fimmta sæti í áðurnefndri röð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar