Höttur hampaði bikarnum

Höttur varð í dag fyrst austfiskra liða til að verða bikarmeistari í körfuknattleik þegar 10. flokkur félagsins vann jafnaldra sína úr A liði Stjörnunnar 64-61 á Ásvöllum í Hafnarfirði. Eysteinn Bjarni Ævarsson var valinn mikilvægasti maður leiksins.

 

karfa_hottur_stjarnana_bikar_10fl_0264_web.jpgHattarmenn voru skrefinu á undan í fyrsta leikhluta og náðu þar mest níu stiga forskoti, 17-8. Garðbæingar minnkuðu samt muninn í 17-14 áður en honum lauk.

Verr gekk í öðrum leikhluta þar sem Stjörnustrákar snéru leiknum sér í vil þegar þeir komust yfir, 24-27 um miðjan fjórðunginn. Munurinn varð samt aldrei meiri og Eysteinn Bjarni minnkaði muninn niður í 31-32 fyrir leikhlé með tveimur vítaskotum.

Stjörnumenn héldu áfram undirtökunum fram í miðjan þriðja leikhluta þegar þeir voru yfir 36-40. Þá fóru þeir að klúðra skotum en Hattarmenn loks að hitta úr sínum. Fimm stig Steinars Arons Magnússonar í seinustu sóknunum tryggðu Hetti 51-45 forustu.

Hattarmenn þjörmuðu áfram að Garðbæingum í byrjun fjórða leikhluta. Eysteinn og Andrés Kristleifsson höfðu verið mest áberandi í leik Hattar en ný ógn bættist við þegar Bjarni Þór Harðarson fór að hitta úr þriggja stiga skotunum. Snerpa Steinars Arons olli þeim einnig vandræðum. Stjörnuhópurinn var samt stærri og breiðari þannig hætta virtist á að þeir kæmu til baka í lokin þegar Hattarmenn þreyttust.

En það gerðist ekki strax. Stjörnumönnum gekk bölvanlega að hitta körfun og Hattarmenn komust í tíu stigum yfir, 58-48 og virtust ætla að hanga á slíku forskoti. Þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum fór Andrés út af með sína fimmtu villu og Stjörnumenn spiluðu ákafa pressuvörn í von um að minnka muninn.

Þegar mínúta var eftir minnkuðu Stjörnumenn muninn í 63-58. Hattarmenn spiluðu yfirvegað í sókninni og uppskáru víti eftir brot á Eysteini. Fram að þessu hafði honum ekki gengið vel á vítalínunni og hann setti aðeins fyrra vítið ofan í. Stjörnumenn náðu frákastinu, fóru upp í sókn og skoruðu, 64-61.

Hattarmenn töpuðu boltanum þegar 25 sekúndur voru eftir. Stjörnumenn fengu tvö fín færi inni í teignum en í bæði skiptin dansaði af hringnum. Þeir héldu samt boltanum, tóku leikhlé og stilltu upp í þriggja stiga skot fyrir sinn besta mann, Dag Kára Jónsson, sem skoraði 25 stig í leiknum. Skot hans fór af hringnum og þrátt fyrir að Stjörnumenn næðu frákastinu var leiktíminn úti.

Hattarmenn hlupu af stað fagnandi. Eysteinn Bjarni og andstæðingur hans úr Stjörnunni lágu eftir úti í horninu eftir baráttuna um seinasta frákastið. Leikmenn hvorugs liðsins gátu hamið tár en það voru gleðitár hjá Hetti.

Eysteinn Bjarni var í leikslok valinn mikilvægasti maður leiksins. Hann skoraði 22 stig og hirti 19 fráköst. Hann spilaði einnig hverja einustu sekúndu leiksins.

Stig Hattar: Eysteinn Bjarni 22, Steinar Aron 16, Bjarni Þór 12, Andrés 7, Sigurður Óli Magnússon 5, Einar Bjarni Hermannsson 2.

Tölfræði leiksins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar