Höttur tapaði fyrir BÍ
Höttur tapaði í dag heima fyrir BÍ/Bolungarvík í 2. deild karla í knattspyrnu. Öll austfirsku karlaliðin spiluðu í dag og kvennaliðin mættust í vikunni.
Mark vestanmanna kom tíu mínútum fyrir leikslok en skot kantmannsins Andra Rúnars Bjarnasonar fór í varnarmann og inn. Jafnræði var með liðunum í leiknum.
Fjarðabyggð gerði 1-1 jafntefli við Njarðvík á útivelli. Bæði mörkin komu úr vítaspyrnum. Jóhann Ragnar Benediktsson kom Fjarðabyggð yfir á 84. mínútu en stuttu áður hafði samherja hans, Daniel Sakaluk, verið vikið af leikvelli eftir að hafa fengið tvö gul spjöld. Njarðvíkingar jöfnuðu úr vítaspyrnu á 90. mínútu sem dæmd var á markvörð Fjarðabyggðar, Srdjan Rajkovic, sem fékk rauða spjaldið fyrir brotið.
Á Fáskrúðsfirði gerðu efstu liðin í D riðli þriðju deildar, Leiknir og Dalvík/Reynir 2-2 jafntefli. Jóhann Jónsson kom Leikni yfir um miðjan fyrri hálfleik og í upphafi þess seinni skoraði Vilberg Marinó Jónasson annað mark heimamanna. Mörk gestanna voru skoruð á 81. og 84. mínútu. Í lok leiksins varði markvörður Dalvíkinga vítaspyrnu Marínós Sigurbjörnssonar. Þetta eru fyrsti leikurinn í sumar sem Dalvík/Reynir vinnur ekki.
Huginn burstaði Draupni 4-0 á Seyðisfirði. Einum gestanna var vikið af velli eftir um hálftíma leik en fyrsta markið kom ekki fyrr en á 52. mínútu. Það skoraði Friðjón Gunnlaugsson. Hann skoraði aftur fimm mínútum síðar. Undir lok leiksins bætti Jack Hands við tveimur mörkum í fyrsta leik sínum fyrir Huginn.
Einherji vann Samherja 1-3 á Akureyri. Gunnlaugur Bjarnar Baldursson kom Einherja yfir í en heimamenn jöfnuðu fyrir hlé. Símon Svavarsson og Davíð Ólafsson skoruðu hvor sitt markið í seinni hálfleik.
Í vikunni gerðu kvennalið Fjarðabyggðar/Leiknis og Hattar 1-1 jafntefli á Eskifirði. Andrea Magnúsdóttir kom heimaliðinu yfir snemma í seinni hálfleik en Arna Óttarsdóttir jafnaði þegar um kortér var eftir.
Í gærkvöldi féll kvennalið Fjarðabyggðar/Leiknis úr leik í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar þegar liðið tapaði 9-0 fyrir úrvalsdeildarliði Þór/KA á Akureyri.