Hvað þarf til að Höttur haldist uppi?

Höttur tekur á móti deildarmeisturum Keflavíkur í lokaumferð úrvalsdeildar karla í körfuknattleik í kvöld. Höttur er í næst neðsta sætinu, fallsæti, en á enn möguleika á að bjarga sér. Til þess þurfa stjörnurnar að raðast rétt upp.

Fyrsta atriðið er að Höttur vinni Keflavík. Það er ekki einfalt, gestirnir hafa ekki tapað nema tveimur leikjum í vetur og eru langefstir í deildinni.

En Hattarliðið hefur sýnt að það getur staðið í öllum liðum þannig að sigur er möguleiki þótt líkurnar á hinum fræga pappír séu ekki liðinu í hag. En það þarf fleira til.

Ef Höttur vinnur sinn leik fer liðið upp í 16 stig. ÍR og Njarðvík eru með þann stigafjölda í 9. – 10. sæti. Njarðvík tekur á móti Þór Þorlákshöfn en ÍR heimsækir KR á sama tíma. Besta og einfaldasta útgáfan væri sú að Njarðvík tapaði en ÍR ynni. Þá héldist Höttur uppi.

Þegar tvö lið eða fleiri eru jöfn að stigum í deild á vegum Alþjóðakörfuknattleikssambandsins, FIBA, ráða innbyrðisviðureignir þeirra sætaröðun. Fyrst er spurningin um sigrana í þeim, síðan um stigamun í leikjum og þar á eftir koma skoruð stig í þeim. Ef þetta dugir ekki til gildir stigamunur í deildinni og síðan skoruð stig í deildinni. Síðasta úrræðið er hlutkesti.

Ef Njarðvík tapar en ÍR og Höttur vinna verða Höttur og Njarðvík jöfn í 10. – 11. sæti en Höttur hefur betur því liðið vann báðar innbyrðisviðureignirnar. Ef Njarðvík og Höttur vinna en ÍR tapar fellur Höttur því liðið tapaði báðum leikjunum gegn ÍR.

Þá kemur að stóru spurningunni: Hvað ef Höttur vinnur en ÍR og Njarðvík tapa þannig að þau verða þrjú jöfn? Stutta svarið er að það breytir engu fyrir Hött. Njarðvík vann báða leikina gegn ÍR og er því með 4 sigra og tvö töp í innbyrðisviðureignum liðanna. Það verður því efst. Hin liðin eru með tvo sigra en fjögur töp. Innbyrðisviðureignir ÍR og Hattar eru Breiðholtsliðinu í hag, það vann báða leikina með um 20 stiga mun, þýða að Höttur fellur.

Þannig að svarið við spurningunni sem lagt var upp með í byrjun er einfalt: Til að Höttur haldi úrvalsdeildarsætinu þarf liðið að vinna Keflavík, Njarðvík að tapa fyrir Þór Þorlákshöfn og ÍR að vinna KR. Leikirnir hefjast klukkan 19:15.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.