Hvers vegna þurfti Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir í úrslitakeppni?
Lið Fjarðabyggðar/Hattar/Leiknis tekur á laugardag á móti fram í seinni leik liðanna í undanúrslitum annarrar deildar kvenna í knattspyrnu. Liðið sem vinnur fer upp um deild. Margir Austfirðingar hafa spurt sig hvers vegna liðið þeirra þurfti í úrslitakeppni eftir að hafa unnið deildina örugglega en það lá fyrir frá byrjun.Í Íslandsmóti kvenna eru þrjár deild og er önnur deildin sú neðsta af þeim. Fjöldi liða í efri tveimur deildunum er fastur en getur sveiflast milli ára í þeirri neðstu.
Samkvæmt mótareglugerð Knattspyrnusambands Íslands ákveður stjórn sambandsins keppnisfyrirkomulag þegar ljóst er hversu mörg lið skrá sig til keppni í deildinni.
Í reglunum er heimild til að skipta liðum þar í riðla eða hafa keppnina svæðisskipta og leika síðan til úrslita. Þar er einnig ákvæði um að í öllum deildum Íslandsmóts kvenna skuli leikin tvöföld umferð, heima og heiman, en heimilt er að víkja frá þessu ákvæði í annarri deildinni.
Erfitt að spila tvöfalda umferð
Að þessu sinni skráðu þrettán lið sig til keppni sem setti sambandið í bobba. Í þrettán liða deild leikur hvert lið tólf leiki í einfaldri umferð en leikdagarnir eru þrettán. Það myndi þýða að ef leikin væri tvöföld umferð spilaði hvert lið 24 leiki og leikdagarnir yrðu 26.
Til samanburðar má nefna að í efstu deild kvenna eru 10 lið og 18 umferðir/leikdagar en 12 lið og 22 umferðir/leikdagar í efstu deild karla. Af þessu má ráða að tvöföld umferð hefði skipað verulegt álag á leikmenn auk þess sem áskorun hefði verið að koma leikjunum fyrir í íslenska sumrinu þar sem Covid-takmarkanir höfðu mikil áhrif á undirbúningstímabilið.
Á fundi sínum 18. febrúar samþykkti stjórn KSÍ tillögu um keppnisfyrirkomulag í annarri deild kvenna, að leik yrði einföld umferð og síðan úrslitakeppni fjögurra efstu liðanna um tvö laus sæti í fyrstu deild. Jafnframt bókaði stjórnin ánægju sína með fjölgun liða í deildinni.
Í kjölfarið var liðunum kunngjört um ákvörðunina en samkvæmt upplýsingum Austurfréttar var leitað samráðs við þau áður um fyrirkomulagið, hvernig liðunum yrði bæði tryggður sanngjarn leikjafjöldi en einnig komið í veg fyrir að álagið yrði of mikið.
Úrslitaleikur á laugardag
Þess vegna er svo komið að þrátt fyrir að hafa unnið deildina afar sannfærandi er Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir að spila um sæti í fyrstu deildinni. Mótherjinn er Fram og gerðu liðin 1-1 jafntefli í Reykjavík um síðustu helgi. Liðin mætast aftur í Fjarðabyggðarhöllinni klukkan 13:00 á laugardag. Það lið sem hefur betur fer því upp um deild. Verði jafnt verður leikið til þrautar nema annað liðið hafi skorað fleiri mörk á útivelli.
Sigurliðið leikur svo úrslitaleik gegn liðinu sem fylgir því upp um deild viku síðar.