Ingeborg nokkuð frá sínu besta á Paralympics
Ingeborg Eide Garðarsdóttir, frjálsíþróttakona frá Fáskrúðsfirði, missti naumlega af því að komast í úrslit í sínum flokki í kúluvarp á Paralympics, eða Ólympíumóti fatlaðra, í París á laugardag.Ingeborg kastaði lengst 9,36 metra og hafnaði í níunda sæti í forkeppninni. Þar eru köstuð þrjú köst. Átta efstu eftir hana komast í úrslit og fá fleiri köst.
Ingeborg var nokkuð frá sínu besta en Íslandsmet hennar frá í apríl er 9,83 metrar. Ingeborg glímir við CP helftarhömlun sem lýsir sér í lömun í hægri hendi og fæti og keppir því í flokki F37 hreyfihamlaðra. Hún ólst upp á Fáskrúðsfirði fyrstu tvö ár ævi sinnar en flutti síðan suður til Reykjavík. Hún æfir þar með Ármanni.
Ingeborg er fædd árið 1996 og því 28 ára í ár. Á fréttavef Íþróttasambands fatlaðra er haft eftir henni að hún væri vissulega svekkt með að ná ekki betri árangri en ætli sér að horfa fram á veginn og taki ekki fyrir að setja stefnuna á næstu leika sem haldnir verða í Los Angeles eftir fjögur ár.
Ingeborg fyrir miðju í íslenska hópnum. Mynd: Íþróttasamband fatlaðra