Íslandsmeistaramót haldið á félagssvæði SKAUST

Íslandsmeistaramót Skotíþróttasambands Íslands í klasaskotfimi var haldið á skotsvæði Skotfélags Austurlands (SKAUST) á Eyvindarárdal um síðustu helgi. Þetta er annað árið í röð sem SKAUST heldur Íslandsmótið.

Í klasaskotfimi er markmiðið að skjóta sem minnstum klasa með fimm skotum á annars vegar 100 metra færi, hins vegar 200 metra færði, alls 50 skotum.

Skotið er með sérsmíðuðum rifflum af steyptum borðum þar sem riffillinn hvílir á undirstöðum til að ná sem mestri nákvæmni. Þá eru notuð handhlaðin skot sem hlaðin eru á staðnum til að ná fram hámarks nákvæmni.

Veður var fremur hagstætt báða dagana, þurrt en breytilegur vindur. Þrátt fyrir það er það iðulega vindurinn og ytri aðstæður sem ráða úrslitum. Sigurvegari mótsins í samanlögðu varð Kristbjörn Tryggvason.

Innan SKAUST hefur byggst upp mikil þekking á mótahaldi, sérstaklega í riffilgreinum á síðustu árum því félagið hefur haldið tugi móta. Haraldur Gústafsson var dómari, Heiður Ósk Helgadóttir skotstjóri og Hjalti Stefánsson mótsstjóri.

Mynd: HS Tókatækni

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar