Íþróttir: Höttur með örugga forustu í jólafríið
Höttur er með trygga stöðu í efsta sæti fyrstu deildar karla í körfuknattleik þegar deildin fer í jólafrí. Blaklið Þróttar féllu niður um sæti eftir ósigra gegn HK.
Höttur burstaði ÍA á Akranesi í síðasta leiknum fyrir jólafrí á föstudag, 66-104. Ólíkt fyrri leik liðanna á Egilsstöðum í haust mætti ÍA til leiks með fullskipað lið en það skipti ekki öllu fyrir úrslit leiksins.
Höttur hafði örugga forustu allan leikinn og fengu allir leikmenn á skýrslu að spila. Aaron Moss skoraði 27 stig og tók 15 fráköst og Hreinn Gunnar Birgisson skoraði 19 stig.
Á sama tíma tapaði Fjölnir í toppslag á heimavelli fyrir Val. Höttur er með fjögurra stiga forskot á Fjölni sem hefur tapað þremur leikjum, líkt og Valur og Breiðablik, en leikið einum leik meira. Höttur hefur aðeins tapað einum leik og fer því með fjögurra stiga forskot inn í jólafríið.
Kvennalið Þróttar missti toppsætið þegar það tapaði tvívegis fyrir HK í Kópavogi. HK vann fyrri leikinn 3-0 í hrinum eða 25-19, 26-24 og 25-20.
Seinni leikurinn í gær fór í oddahrinu. Þróttur vann fyrstu tvær hrinurnar 24-26 og 21-25 þannig að farið var að fara um Íslandsmeistarana en þeir svöruðu 25-20, 25-15 og 15-10.
Þróttur og HK eru bæði með 25 stig en HK hefur spilað 9 leiki en Þróttur 12. Afturelding er í þriðja sæti með 24 stig eftir 9 leiki.
Karlaliðið lék einnig tvo leiki við HK og vann HK báða 3-0. Þróttur byrjaði einkar illa í fyrri leiknum og tapaði fyrstu hrinu 25-6. Þær næstu fóru 25-11 og 25-13. Hrinurnar í seinni leiknum fóru 25-18, 25-20 og 25-22.
HK og Stjarnan deila toppsætinu í karladeildinni með 20 stig eftir 9 leiki en Þróttur er í þriðja sæti með 15 stig úr 10 leikjum.