Íþróttir: Kvennalið Þróttar áfram á toppnum
Þróttur heldur efsta sætinu í Mizuno-deild kvenna í blaki eftir sigar á Þrótti og Stjörnunni syðra um helgina. Karlaliðið tapaði hins vegar tvisvar sinnum gegn Stjörnunni. Höttur heldur toppsætinu í fyrstu deild karla í körfuknattleik.
Þróttur byrjaði á leik gegn nafna sínum úr Reykjavík og vann hann 1-3. Norðfjarðarliðið tapaði fyrstu hrinunni þrátt fyrir ótrúlegan kafla. Liðið lenti 22-13 undir en skoraði tíu stig í röð og komst yfir 22-23. Reykjavíkurliðið hafði betur eftir upphækkun, 26-24.
Þessi kafli var hins vegar aðeins fyrirboði um það sem fylgdi á eftir. Þróttur vann aðra hrinuna 13-25 og skoraði þar sjö síðustu stigin í hrinunni. Þriðja hrinan vannst 18-25 og sú fjórða 22-25. Þróttur var með tökin á henni allan tímann síðan jafnt var 2-2.
Þróttur þurfti hins vegar að hafa mun meira fyrir Stjörnunni í gær en úrslitin réðust þar í oddahrinu. Þróttur byrjaði á að vinna fyrstu hrinuna 20-25 með að skora síðustu fimm stigin en Stjarnan svaraði strax 25-23.
Þriðju hrinuna vann Þróttur 13-25. Liðið byrjaði skelfilega. Stjarnan skoraði fyrstu sex stigin og komst í 10-3 en Þróttur jafnaði í 11-11. Þaðan hélt liðið áfram og skoraði að lokum síðustu sjö stigin.
Fjórðu hrinuna vann Stjarnan 25-22 en Þróttur svaraði 11-15 og fór með tvö stig austur. Liðið er efst í deildinni með 33 stig eftir 15 leiki. Önnur lið deildarinnar eiga 5-6 leiki til góða og eiga HK og Afturelding, sem eru í næstu sætum, því ágæta möguleika á að ná toppsætinu. Þróttur á þrjá leiki eftir í deildakeppninni og er nú farinn í þriggja vikna frí.
Tvö töp gegn Stjörnunni
Karlaliðið átti hins vegar erfitt uppdráttar gegn Stjörnunni þótt það næði fram oddahrinu í fyrri leiknum á laugardag. Stjarnan vann fyrstu hrinuna 25-17 en Þróttur svaraði 21-25 í þeirri næstu sem vannst eftir góðan endasprett.
Stjarnan vann þriðju hrinuna 25-23 en Þróttur spilaði vel í þeirri fjórðu og vann 21-25. Stjarnan hafði undirtökin allan tíman í oddahrinunni og vann 15-10.
Í gær vann Stjarnan 3-1. Fyrstu þrjár hrinurnar voru nokkuð jafnar. Stjarnan vann fyrstu og þriðju hrinu 25-23 og 25-22 en Þróttur aðra 24-26. Stjarnan landaði sigrinum nokkuð örugglega í þeirri fjórðu og vann hana 25-21.
Þróttur á í harðri samkeppni um sæti í úrslitakeppninni. Lið er í þriðja sæti með 19 stig en Afturelding í því fjórða með 17 stig og tvo leiki til góða.
B lið Þróttar er komið í þriðju umferð bikarkeppni kvenna í blaki. Liðið vann Hamar í Hveragerði á föstudag 1-3 eða 22-25, 25-21, 16-25 og 15-25.
Þægilegt gegn Blikum
Höttur heldur efsta sætinu í fyrstu deild karla í körfuknattleik eftir 69-82 sigur á Breiðablik í Kópavogi í gær. Höttur hafði örugg tök á leiknum allan tímann og var aðeins einu sinni undir, 4-3 í blábyrjun.
Aaron Moss var stigahæstur með 22 stig og 13 fráköst, Mirko Virijevic skoraði 20 stig og tók 15 fráköst og Sigmar Hákonar skoraði einni 20 stig. Hann var með 80% skotnýtingu í leiknum, þar af 100% úr teignum og vítalínunni.
Höttur á framundan stórleik á föstudagskvöld þegar liðið heimsækir Fjölni í Grafarvogi. Fjölnir eru í öðru sæti tveimur stigum á eftir Hetti en hefur leikið leik meira.